Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Gjörbreytt staða“ á Hornafirði en bjartsýni að aukast

Mynd: RÚV - Samsett / RÚV - Samsett
Atvinnuleysi í sveitarfélaginu Hornafirði mælist nú tæplega 27% en var í lágmarki í byrjun árs. Bæjarstjórinn segir mikið skarð vera höggvið í sveitarfélagið þegar komur ferðamanna lögðust af vegna kórónuveirufaraldursins.

„Svo það er mikið skarð höggvið í samfélagið þegar þurrkast út svo stór hópur fólks sem heimsækir okkur,“ sagði Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri á Hornafirði, á Morgunvaktinni á Rás eitt í morgun. Hún segir 2.500 gistirými vera í sveitarfélaginu, sem er meira en íbúafjöldinn. Höggið er því mikið.

Matthildur segir að um 100 einstaklingar séu skráðir atvinnulausir á svæðinu og ofan á það eru um 400 á hlutabótaleiðinni í skertu starfshlutfalli. Það geri um 27% atvinnuleysi, samanborið við 2% í janúar og febrúar. Þetta sé því gjörbreytt staða.

Hornfirðingar eru þó bjartsýnni en áður eftir að stjórnvöld kynntu afléttingu ferðatakmarkana frá og með 15. júní. Sumarið hafi verið vel bókað en fólk var farið að óttast að landið yrði lokað mun lengur.

„Ferðaþjónustuaðilar segja að það sé vel bókað í júlí og ágúst, en maður veit ekki hvað skilar sér af því,“ sagði Matthildur. Hún sagði ferðaþjónustuna á svæðinu leita allra leiða til að fá Íslendinga á svæðið. Meðal annars er boðið upp á skíða- og brettakennslu á Skálafellsjökli, en Hornafjörður hefur ekki verið þekktur sem áfangastaður fyrir skíðafólk.

Hornfirðingar hafa einnig ákveðið að fresta hinni árlegu Humarhátíð sem haldin hefur verið frá árinu 1993. Þess í stað á að horfa til smærri viðburða í allt sumar og koma tvíefld til leiks með Humarhátíð á næsta ári.