Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fleirum þykir of mikið gert úr COVID-hættunni

14.05.2020 - 19:33
Mynd úr safni. - Mynd: Landspítali/Þorkell Þorkelsso / Landspítali/Þorkell Þorkelsso
Fleirum þykir nú of mikið gert úr heilsufarslegri áhættu af COVID-19, samkvæmt þjóðarpúlsi Gallups. Þeim fækkar sem segjast forðast knús, kossaflens og mannmergð. Ótti þjóðarinnar við efnahagsleg áhrif jókst eftir að ríkisstjórnin kynnti síðasta aðgerðapakka en svo dró úr honum á ný. 

Óttinn við að smitast af COVID-19 hefur dvínað. Þegar verst lét síðstu vikuna í mars óttuðust þrjátíu og tvö prósent það mikið að smitast. Núna óttast tæp tuttugu prósent mikið að smitast enda hefur smitum snarfækkað. 

Einnig er spurt um efnahagslegar afleiðingar af veirunni. Seinni hluta marsmánaðar jókst ótti fólks úr því að tæp sjötíu prósent höfðu miklar áhyggjur af þeim í að áttatíu og eitt prósent. 

Ríkisstjórnin kynnti fyrstu mótvægisaðgerðir gegn efnahagslægðinni 21. mars eða fyrsta aðgerðarpakkann. Svo virðist sem það hafi aðeins slegið á óttann því í næstu Gallup-könnun á eftir höfðu sjötíu og átta prósent miklar áhyggjur.

Ríkisstjórnin kynnti annan aðgerðapakka 21. apríl. Í næstu könnun á eftir reyndust tæp sjötíu og átta prósent hafa miklar áhyggjur eða álíka margir og í vikunni áður. 

Þriðja aðgerðapakkann kynnti ríkisstjórnin svo 28. apríl. Hann virðist lítið hafa slegið á ótta þjóðarinnar því vikuna á eftir reyndust áttatíu prósent hafa miklar áhyggjur. Þar kunna aðrir þættir þó að hafa áhrif eins og fregnir af efnahagsþrengingum Icelandair. Hvað sem veldur þá hefur alla vega fækkað í hópi þeirra sem hafa miklar áhyggjur og eru þeir nú sjötíu og sex prósent.  

Eitthvað virðist geislabaugurinn yfir þríeykinu hafa dofnað því þeim fækkar sem bera fullkomið traust til Almannavarna og heilbrigðisyfirvalda. Fyrir rúmum hálfum mánuði báru 57,2% fullkomið traust til þeirra, í síðsutu könnun voru það 52,9 prósent en núna 48,8 prósent. 

Þeim fjölgar sem þykir of mikið gert úr heilsufarslegri áhættu af COVID-19, úr níu prósentum í tólf.  

Þegar verst lét, í fyrri hluta apríl, fundu 36,9 prósent fyrir miklum kvíða vegna veirunnar. Fækkað hefur um helming í þessum hópi. Núna finna 18,8% fyrir miklum kvíða. 

Könnunin leiðir einnig í ljós að þeim hefur fækkað lítillega sem forðast faðmlög og kossa, fjölfjarna staði og óþarfa samskipti við annað fólk.