Fleiri alls óvanir standa í framkvæmdum í samkomubanni

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Sala á málningu hefur aukist um þriðjung frá því að samkomubann tók gildi. Sölustjóri segir að margir alls óvanir, standi nú í framkvæmdum. Tekjur 15% fyrirtækja í verslun og þjónustu jukust milli ára. Fólk heldur sér í formi með hjólreiðum þegar ræktin er lokuð.

Flestir þekkja einhvern sem hefur dyttað að heima fyrir, úti eða inni, síðustu vikur. Tekjur 15% fyrirtækja í verslun og þjónustu jukust í apríl miðað við sama tíma í fyrra, þrátt fyrir samkomubann samkvæmt könnun sem Samtök atvinnulífsins lét gera. 

„Eftir páska fór einkaneyslan mjög upp á við og hefur verið á leiðinni upp á við síðan. Það hefur verið mjög mikið að gera í byggingavöruverslunum, verslunum með málningu og búnað til heimilisins. Þetta kom þægilega á óvart,“ segir Andrés Magnússon framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu. 

30-40% söluaukning á málningu

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Kristján Sigurðsson, sölustjóri í Málningu.

„Þegar samkomubannið byrjar fer að aukast sala. Byrjar í innimálningunni fyrst og síðan viðarvörn og pallaolíu. Það er mjög mikið að gera,“ segir Kristján Sigurðsson sölustjóri í Málningu. Hvað erum við að tala um mikla aukningu milli ára? „Ég gæti trúað svona 30-40% miða við undanfarin ár.“

Eitt útspil stjórnvalda er full endurgreiðsla virðisaukaskatts sem gæti spilað inn í aukinn framkvæmdavilja landans. Skatturinn er þó ekki byrjaður að afgreiða umsóknir um slíkt vegna þess hve langan tíma tekur að forrita tölvulausn fyrir úrræðið. 

Átti ekki von á söluaukningu í samkomubanni

„Við erum að sjá nýjan kúnnahóp. Fólk sem er að koma og hefur aldrei gert neitt áður og þarf mikla aðstoð,“ segir Kristján jafnframt. „Það átti enginn von á þessu. Það vissi enginn hvað maður átti von á, sumir héldu að það yrði ekkert að gera. en það var þveröfugt. Það er búið að vera brjálað að gera.“

„Hjólasala á sterum“

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Stefán Haukur Erlingsson, verslunarstjóri í Erninum.

En sala hefur aukist víðar, til að mynda í reiðhjólaverslunum enda hafa líkamsræktarstöðvar verið lokaðar í nærri tvö mánuði. „Þetta er nærri því tvöföldun frá því í fyrra. Strax í mars byrjuðu þrektæki að seljast á fullu og svo hjólasala á sterum á eftir því,“ segir Stefán Haukur Erlingsson, verslunarstjóri í Erninum.

Er fólk að gera upp hjólin sín eða kaupa nýtt? „Mikið til er fólk að kaupa nýtt. En það er skortur í landinu, þá kemur fólk með hjólin sín hingað sem þurfa viðhald,“ segir Óskar Páll Þorgilsson, hjólaviðgerðarmaður

„Það er búið að vera biðlisti eftir sumu. Og við höfum selt úr gámunum sem eru að koma. Þannig það er hefur verið hálfsmánaðarbið í mesta lagi,“ segir Stefán Haukur jafnframt.

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV