Fjölmargar ástæður til bjartsýni á framtíðina

14.05.2020 - 07:18
Mynd með færslu
Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka Mynd: Íslandsbanki
Erlend staða þjóðarbúsins er sterk, gjaldeyrisvaraforði Seðlabankans styður við krónuna og hið opinbera hefur svigrúm fyrir aukna skuldsetningu. Fjölmargar ástæður eru því til bjartsýni á framtíðina. Þetta segir í nýrri þjóðhagsspá Íslandsbanka sem birt var í morgun. Bankinn spáir 9,6% meðaltalsatvinnuleysi í ár. 5,8% á næsta ári og 3,8% árið 2022.

„Það eru góðar líkur á því að við náum að þreyja þennan þorra án þess að það verði varanlegur skaði á hagkerfinu okkar. Og með því að spila út réttu spilunum. Ég verð að segja það að hingað til hafa aðgeðrir hins opinbera verið nokkuð vel heppnaðar. Þá gætum við á næsta ári verið farin að sjá efnahagslandið rísa hratt,“ sagði Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka í Morgunútvarpinu á Rás 2. 

Gert er ráð fyrir 9,2 prósent samdrætti landsframleiðslu í ár, en að hagvöxtur verði strax kominn upp í 4,7 prósent á næsta ári og verði 4,5 prósent árið eftir það. Bankinn spáir því að verðbólga verði undir undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans í ár og næstu tvö árin. 

Búist er við að útflutningur vöru og þjónustu minnki um tæplega 23 prósent á árinu og innflutningur um tæp 15 prósent. Viðskiptahalli verður 1,2 prósent af landsframleiðslu en búist er við afgangi af utanríkisviðskiptum á næsta ári. 

Bankinn telur að stýrivextir verði komnir í 0,75 prósent fyrir lok þriðja ársfjórðungs, en að vaxtahækkanir hefjist að nýju á næsta ári. 

Jón Bjarki telur að þær kostnaðarsömu aðgerðir sem ríkið hefur gripið til vegna veirufaraldursins þurfi ekki að kosta miklar skattahækkanir eða niðurskurð á fjárlögum í framhaldinu. „Það kemur auðvitað á móti þessum aðgerðum, að ef þær verða árangursíkar og verða til þess að vernda atvinnustigið og forða ferðaþjónustunni frá langvarandi skelli, þá verða skatttekjurnar fljótar að hressast aftur í kjölfarið,“ sagði Jón Bjarki.

Fréttin hefur verið uppfærð. 

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV