Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Danir skipta um kúrs í baráttunni við kórónuveiruna

14.05.2020 - 11:29
SAS-hótelið í Kaupmannahöfn. - Mynd: EPA-EFE / RITZAU SCANPIX
Danir hafa breytt um aðferðafræði í baráttunni við kórónuveiruna, nú ætla þeir að skima og rekja, ef faraldurinn blossar upp aftur. Svíar, sem sumir saka um að hafa tekið á veirunni með silkihönskum, eru hins vegar að herða aðgerðir að sumu leyti. Þannig ráða þeir fólki frá ,,ónauðsynlegum" ferðalögum til útlanda þangað til eftir 15. júlí.

 

Björn Þór Sigbjörnsson og Bogi Ágústsson ræddu heimsfaraldurinn á Morgunvaktinni á Rás 1. Auk þess að ræða gang mála á Norðurlöndunum beindu þeir sjónum að Bretlandi en stjórnin þar er harðlega gagnrýnd vegna fjölda sem hefur dáið úr COVID-19 á vistheimilum. Málið var til umræðu í fyrirspurnartíma forsætisráðherra. Þar þarf Boris Johnson nú að takast á við sir Keir Starmer, sem er reyndur lögmaður og að sögn fréttaskýrenda miklu rökfastari málafylgjumaður en fyrirrennarinn Jeremy Corbyn.

Eitt af því sem fylgir faraldrinum er að framboð fíkniefna hefur víða minnkað vegna þess að fólk ferðast nánast ekkert. Það gildir á Skáni þar sem Lars Bäckström, yfirmaður í landamæragæslunni, segir að smygl hafi minnkað um helming en ekki verði mögulegt að stöðva það alveg.

 

bjornthor's picture
Björn Þór Sigbjörnsson
dagskrárgerðarmaður