Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Daði og Gagnavagninn á ferð um borgina

Mynd: Strætó / Strætó

Daði og Gagnavagninn á ferð um borgina

14.05.2020 - 12:06

Höfundar

Farþegar Strætó fá að heyra í tónlistarmanninum Daða Frey og ferðast í Gagnavagninum næstu daga í tilefni af því að Eurovision hefði átt að vera um helgina. Keppninni hefur verið frestað en Euro-stemmningunni er haldið á lofti víða.

Farþegar strætisvagna sem eiga leið um Ártún, Fjörð, Spöngina, Mjódd, Hamraborg og Hlemm heyra Daða Frey kynna biðstöðvarnar. Þetta eru nokkur tímamót því hingað til hefur aðeins rödd Herdísar Hallvarðsdóttur ómað um strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu.

Daði Freyr og Gagnamagnið hefðu átt að vera komin til Rotterdam í Hollandi og flytja lagið sitt Think about things í undanúrslitum Eurovision í kvöld. Keppninni var aflýst vegna kórónuveirufaraldursins.

Mynd með færslu
 Mynd: Strætó

Í stað hinnar hefðbundnu Eurovision-keppni verður bein sjónvarpsútsending frá Hollandi á laugardagskvöld og lögin sem þjóðirnar völdu sem sitt framlag verða kynnt. Á dagskrá sjónvarpsins er einnig Euro-stemmning næstu kvöld sem endar með Eurovision-partýi í beinni útsendingu frá Hörpu.

Veislan verður líka í strætó. „Okkur langaði svolítið að halda í Eurovision-gleðina og líka svolítið að fagna því að skerðingunni á tímatöflu Strætó er að ljúka. Svo við ákváðum að búa til Daða og Gagnavagninn,“ segir Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó.

Gagnavagninn er heilmerktur strætisvagn, prýddur myndum af Daða og Gagnamagninu. Vagninn leggur í sína fyrstu ferð frá Hlemmi á leið 4 í dag og verður á götum borgarinnar næstu vikur.

Guðmundur er ekki í neinum vafa um hver hefði unnið Eurovision hefði keppnin verið haldin í ár. „Hann hefði klárlega unnið þetta. Það hefði verið Eurovision 2021 á Íslandi,“ segir hann.

Tengdar fréttir

Tónlist

Will Ferrell í Eurovision-veislu á RÚV í kvöld

Tónlist

Svona er að fara á stefnumót með Eurovision-kynni

Tónlist

Selma djammaði líkt og það væri 1999 í Vikunni