Aðferð klár til að finna kórónuveirumótefni í blóði

Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist - Kr / RÚV
Veirufræðideild Landspítalans er komin með aðferð til að mæla kórónuveirumótefni í blóði. Heilsugæslan ætlar ekki að senda sýni þangað til greiningar fyrr en ljóst er hver borgar. Á næstunni kemur fjöldi sýna á deildina, bæði blóðsýni og stroksýni úr flugfarþegum eftir að landamærin opna 15. júní. 

20 þúsund sýni greind

Starfsfólk sýkla- og veirufræðideildar hefur greint um 20 þúsund sýni frá því í lok febrúar samkvæmt covid.is. Þetta eru sýni sem tekin eru úr nefi og hálsi. Nú bætist við mæling á mótefni fyrir kórónuveirunni í blóði því sóttvarnalæknir vill athuga hve margir hafa í raun smitast. 

„Við teljum okkur vera komin með aðferð sem er fullnægjandi,“ segir Karl G. Kristinsson, „við eigum eftir að prófa tvær aðrar gerðir hvarfefna og við munum væntanlega enda með þá sem að kemur best út.“

Mótefnamælitækið Copas tekur 30 sýni í einu og niðurstaðan kemur eftir tvær klukkustundir. Tvö slík tæki eru á deildinni.

Meira mótefni hjá þeim sem veikst hafa meira

Í prófunum á blóðsýnum, sem tekin voru áður en kórónuveirusýkingin kom upp, voru niðurstöður neikvæðar, það er ekkert mótefni fyrir veirunni í blóðinu.  

„Á sama hátt hafa þeir sem að hafa greinst jákvæðir, þeir hafa reynst jákvæðir í þessum mótefnaprófum sem bendir til þess að næmið sé gott. En það virðist vera að næmið sé betra hjá þeim, sem hafa kannski fengið alvarlegar sýkingar, verri sýkingar, heldur en hjá þeim sem hafa verið nær einkennalausir.“

Bíða þangað til ljóst er hver borgar

Byrjað er að safna blóðsýnum til mótefnamælinga hjá þeim sem fara í blóðprufu af öðrum ástæðum en COVID. Þær mælingar eru gerðar hjá Íslenskri erfðagreiningu. 

Í tilkynningu á vef Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í gær segir að heilsugæslan ætli ekki að gefa út mótefnamælingabeiðnir til Landspítala því rannsóknin sé dýr og óljóst hver borgar. Úr því þurfi að fá skorið.

Karl segir eftir að reikna út verðið en það verði líklega ekki hærra en verðið er núna, sem er sex þúsund krónur.

Geta nú annað 1200 stroksýnum á dag

Stroksýni kosta nú um tíu þúsund krónur en ef kominn verður afkastameiri búnaður eins og stefnt er að til að taka stroksýni úr farþegum, sem koma til landsins frá 15. júní, verður verðið lægra. 

Munið þið geta annað þeim fjölda?

„Í byrjun væntanlega því þá eru það ekki eins margir. Ef þetta verður mikill fjöldi, yfir hundrað þúsund manns á mánuði eða svo, þá höfum við ekki fullnægjandi tækjabúnað eða aðstöðu til þess að gera það.“

Nú er hægt að greina 1200 stroksýni á dag en verið er að gera áætlun til að tryggja meiri afköst. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist - Kr - RÚV
Karl G. Kristinsson.
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist - Kr - RÚV
Mótefnamælitæki af gerðinni Cobas.
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi