Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Verðmætustu plötur Íslandssögunnar

Mynd:  / 

Verðmætustu plötur Íslandssögunnar

13.05.2020 - 18:59

Höfundar

Vínylplötur hafa notið vaxandi vinsælda að undanförnu og margir því eflaust farnir að dusta rykið af gömlum plötum í geymslunni. Ef heppnin er með þér gætu verðmætir fjarsjóðir falist í safninu en um þessar mundir stendur yfir uppboð á plötunni Fire and Steel með íslensku svartmálmssveitinni Flames of Hell á Ebay og hæsta boð er komið yfir þúsund pund.

Gestur Baldursson, starfsmaður Lucky Records, þekkir vínylplötur betur en flestir og þegar hann er spurður um verðmætustu plötur Íslandssögunnar reiknar hann með að títtnefnd plata með Flames of Hell sé sú verðmætasta. „Það eru tvö ár síðan að eintak af nákvæmlega þessari plötu seldist á Ebay á yfir 4.000 dollara sem er orðið óopinbert Íslandsmet. Hæsta verð sem hefur sést hefur á íslenskri plötu fyrr og síðar,” segir Gestur

Platan Fire and Steel kom upprunarlega út árið 1987 og segir Gestur að hún hafi verið langt á undan sinni samtíð tónlistarlega séð. Platan kom út á vegum útgáfuryrirtækis í Frakklandi og það voru sárafá eintök sem rötuðu til Íslands og var platan því aldrei í neinni alvöru dreifingu hér á landi. Gestur segir plötuna nánast alltaf hafa verið mjög eftirsótta, bæði hér heima og erlendis. 

Þrátt fyrir að engin íslensk plata hafi selst á meira en fjögur þúsund dollara svo vitað sé, en það eru um 600þús krónur á genginu í dag, þá eru nokkrar plötur sem hafa verið gefnar út hér á landi sem þykja ansi verðmætar. „Ég myndi nú segja að það gæti verið platan What’s Hidden There með Svanfríði,” segir Gestur aðspurður um hvaða plata komi á eftir Flames of Hell. Hann segir þó að erfitt sé að raða verðmætustu plötum Íslandssögunnar í ákveðin sæti. „Platan með Svanfríði og sömuleiðis fyrsta platan með hljómsveitinni Ice Cross, hún er þarna á topp fimm listanum. Fyrsta platan með Kukl sem var sjö tommu plata og bar nafnið Söngull, hún er þarna líka. Svo eru aðrar plötur sem koma í þessi sæti frá fimm og upp í tíu.”

Ef einhver skyldi finna eintak af fyrrnefndum plötum í geymslunni er þó alls ekki öruggt um að eintakið sér verðmætt. „Þetta verður að vera frumútgáfa. Það sem er á bakvið þessa verðmiða sem sést hafa, það er náttúrulega fyrst og fremst ástand. Í sumum tilvikum getur það verið að platan sé óspiluð, jafnvel innsigluð. Það hefur haft sitt að segja líka ef plötur eru áritaðar af meðlimum, upprunarlegum meðlimum. En það er alveg rétt, plata og plata er ekki það sama. Eintakið og ástandið verður að vera í fullkomnu standi svo sem hæsta verð fáist fyrir það,” segir Gestur. 

Athygli vekur að verðmætustu eintökin af íslenskum plötum hafa þó ekki verið keyptar af Íslendingum heldur er alltaf um erlenda aðila að ræða. „Öll þessi hæstu verð sem við vorum að tala um áðan hafa komið frá kaupendum erlendis frá. Það er mjög fátítt að plötur hér heima skipta um hendur fyrir meira en 40-50.000. Það er mjög fátítt,” segir Gestur. Fjórir dagar eru í að uppboðinu ljúki og talsverður fjöldi fylgist með og því má reikna með að upphæðin eigi eftir að hækka umtalsvert á næstu dögum. Áhugasamir kaupendur geta fylgst með uppboðinu hér.

Nánar var rætt við Gest Baldursson í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.

Hér geta lesendur hlustað á fagra tóna af plötunnu Fire and Steel með Flames of Hell. 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Vínylplötusafn prinsins á uppboði

Menningarefni

22 vínylplötur komnar eftir nóttina