Telur rétt að birta nöfn fyrirtækja í hlutabótaleið

13.05.2020 - 11:18
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Persónuvernd segir það ekki brjóta persónuverndarlög að Vinnumálastofnun birti upplýsingar um þau fyrirtæki sem hafa starfsmenn á hlutabótaleiðinni. Vinnumálastofnun taldi sér ekki heimilt að birta slíkar upplýsingar þar sem hætta var á að slíkt samræmdist ekki persónuverndarlögum.

Í svari sem birt er á vef Persónuverndar í dag segir meðal annars að það sé á grundvelli almannahagsmuna að upplýsingar um þau fyrirtæk sem hafa starfsmenn, sem sótt hafa um bætur hjá Vinnumálastofnun, verði gerðar aðgengilegar. Birting slíkra upplýsinga skapi aðhald fyrir fyrirtækin þar sem efnahagslegir hagsmunir eru bundnir við greiðslu bóta.

Vinnumálastofnun hafði meðal annars áhyggjur af því að með því að birta nöfn smærri fyrirtækja með fáa starfsmenn væri hægt að persónugreina umsækjendur. Persónuvernd fellst ekki á það og ítrekar að birting allra fyrirtækja skapi aðhald. Ef fyrirtæki með fáa starfsmenn verði undanskilin náist sá tilgangur ekki.

„Í því sambandi bendir Persónuvernd á að ekki er alltaf samhengi á milli starfsmannafjölda fyrirtækja og fjárhagslegrar stöðu þeirra,“ segir í bréfi Persónuverndar, sem telur að upplýsingar um þá einstaklinga sem þiggja bætur geti ekki talist vera viðkvæmar persónuupplýsingar. 

Persónuvernd áréttar að hún sker ekki úr um lögmæti afhendingar upplýsinga samkvæmt upplýsingalögum, en að vinnsla persónuupplýsinga eigi ekki að girða fyrir það að afhentar eða birtar séu upplýsingar um fyrirtæki sem nýta sér hlutabótaleiðina.

 

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi