Stóra málið að byggja upp nýtt flugfélag ef illa fer

Mynd: RÚV / RÚV
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segist engar áhyggjur hafa af því að ekki verði hægt að tryggja flugsamgöngur til landsins til skamms tíma ef björgunarleiðangur Icelandair gengur ekki eftir. Stóra verkefnið verði þá hins vegar að byggja upp nýtt flugfélag sem sinni flugi á Norður-Atlantshafi með Keflavíkurflugvöll sem tengiflugvöll. Hann segir margar sviðsmyndir koma til greina og lýsir vonum um að þær yrðu bornar upp af þeim sem kæmu með fé úr einkageiranum til slíks verks.

Þetta sagði fjármála- og efnahagsráðherra á Alþingi í dag. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, spurði út í áætlanir ríkisstjórnarinnar vegna vanda Icelandair. Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa sagt að ganga verði frá kjarasamningum og tryggja forsendur fyrir hluthafafund 22. maí. Þá verður tekin ákvörðun um hvort ráðist verður í hlutafjáraukningu upp á allt að 29 milljarða króna.

Hriktir í stoðum

„Núna hriktir í stoðum Icelandair,“ sagði Þorgerður Katrín. Hún sagði að hægt væri að takast á við flugbrest tímabundið en tók fram að tíðar flugsamgöngur væru grundvallarstoð, til dæmis í að koma fiski fljótt á markað.

„Það er okkar áætlun að styðja við alþjóðaflugvöll í Keflavík sem sinnir norður-Atlantshafsflugi eins og Icelandair hefur verið að gera síðustu ár og áratugi,“ sagði Bjarni. „Í því liggur verðmætið í Icelandair fyrir okkur Íslendinga. Þetta er félagið sem hefur byggt upp leiðakerfi um flugvöllinn í Keflavík á Norður-Atlantshafsflugleiðinni. Enginn annar hefur boðið sig fram í gegnum tíðina til að sinna þessu og það er ólíklegt, segi ég fyrir mitt leyti, að erlendir aðilar hlaupi í skarðið.“

Þorgerður Katrín lagði áherslu á að Íslendingar yrðu reiðubúnir að grípa tækifærið þegar landið opnast og útflutningur eykst. Hún spurði fjármálaráðherra hvernig ríkisstjórnin hygðist stíga inn í málið ef brestur yrði á flugsamgöngum.

Skammtíma- og langtímaverkefni

Bjarni sagði að það væri forsvarsmanna Icelandair, fyrirtækis á markaði, að vinna úr stöðunni og greiða úr þeim vanda sem við blasir. Hann minnti á að ríkisstjórnin hefði heitið ríkisábyrgð ef áform Icelandair um hlutafjáraukningu gengju eftir. „Takist stjórnendum hins vegar ekki að leysa úr fjárhagsvanda félagsins þá er komin önnur staða. Þá er komin ný staða sem ekki er hægt að úttala sig um á þessari stundu. Ég hef engar áhyggjur af því að til skamms tíma sé ekki hægt að tryggja flugsamgöngur til landsins. Það er hægt að gera eftir margvíslegum leiðum. Stóra verkefnið sem við okkur sameiginlega blasir hins vegar þá, mistakist þessi tilraun, er að byggja að nýju upp félag sem getur sinnt þessu mikilvæga hlutverki með Keflavíkurflugvöll með tengiflugvöll á Norður-Atlantshafi. Það hljóta að koma margar sviðsmyndir til skoðunar í því samhengi og vonandi bornar uppi af þeim sem ætla að koma með fjármagn úr einkageiranum.“

 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi