Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Sjávarhiti kann að veita vísbendingar um laxveiði

13.05.2020 - 10:12
Mynd með færslu
Mynd úr safni Mynd: Ásgeir Jónsson - RÚV
Góðar vísbendingar eru um góðar smálaxagöngur í ám á sunnan- og vestanverðu landinu í sumar. Stangveiði á laxi í þessum landshluta er yfirleitt um 40 prósent af heildarveiði náttúrulegra laxastofna á landinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hafrannsóknastofnun, Haf og vatn. Vísbendingarnar um góðar smálaxagöngur byggja á því að sjórinn í júlí í fyrra var hlýrri en áður hefur mælst eða að meðaltali tæpar tólf gráður. 

Í tilkynningunni kemur fram að miðað við sjávarhita gæti orðið 21 til 25 þúsund fiska veiði smálaxa á Vesturlandi í sumar. Þó sé ekki hægt að fullyrða um það því mikill munur hafi verið á veiðinin 2008 og 2011 þrátt fyrir sambærilegt hitastig þau ár. 

Það sem helst hafi áhrif á fjölda göngulaxa sé breytilegur fjöldi gönguseiða í ánum og breytileg afföll í sjávardvölinni. Hafrannsóknastofnun rannsakaði aðeins tengsl sjávarhita við laxveiði ári síðar. 

Þá segir Hafrannsóknastofnun í tilkynningunni að loftlagsbreytingar hafi áhrif á lífríkið. Auk þess að hafa áhrif á hitastig sjávar valdi þær breytingum á seltu, sýrustigi og hafstraumum sem geti einnig haft mikil áhrif á lífríkið.  

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV