„Samningarnir sem þeir bjóða okkur eru fáránlegir“

13.05.2020 - 13:54
Mynd: Guðmundur Bergkvist / Guðmundur Bergkvist
Þórunn Elva Þorgeirsdóttir, flugfreyja hjá Icelandair, segir að flugfélagið sýni flugfreyjum vanvirðingu og að tilboði félagsins verði aldrei tekið. Icelandair nýti sér farsóttina til að setja fram léleg tilboð sem hafi lítið breyst í tæp tvö ár.

Fundi slitið og nýr fundur ekki boðaður

Samningafundi í kjaradeilu Icelandair og flugfreyja hjá ríkissáttasemjara var slitið eftir rétt rúmlega klukkustundar fund fyrr í dag. Tugir flugfreyja komu saman utan við hús ríkissáttasemjara og tóku á móti samninganefndum.

Flugfreyjur hafa sagt að tilboð Icelandair hafi falið í sér 40% kjaraskerðingu. Því hefur forstjóri Icelandair hafnað. Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, starfandi formaður Flugfreyjufélagsins, sagði í samtali við fréttastofu fyrr í dag að flugfreyjur hafi lagt fram tilboð 4. maí og á fundinum í gær hafi þær ítrekað að þær væru tilbúnar til viðræðna á grundvelli þess tilboðs. Icelandair hafi ekki talið sig geta samið á þeim grunni að svo stöddu og fundi var því slitið. Nýr fundur hefur ekki verið boðaður.

Sendu starfsmönnum eitt stórt „fokk-jú“ merki

Þórunn Elva Þorgeirsdóttir flugfreyja var ein þeirra sem mætti fyrir utan hús ríkissáttasemjara í dag. Hún skrifaði langa færslu á Facebook í gær þar sem hún segir Icelandair hafa sýnt flugfreyjum mikla vanvirðingu. Þá hafi margir ranghugmyndir um starfið.

„Í gær var sorgardagur í sögu Icelandair þegar yfirmenn okkar sendu 940 af sínum starfsmönnum sem alltaf hafa staðið með fyrirtækinu sínu stórt FOKKJÚ merki. Ég var mjög stolt af því að vera starfsmaður Icelandair. Aldeilis ekki lengur,“ segir í færslu Þórunnar.

Fela sig á bakvið COVID-19

Haukur Holm fréttamaður ræddi við Þórunni fyrir utan hús ríkissáttasemjara í dag. Hún segir að ekki komi til greina að samþykkja tilboð Icelandair.

„Samningarnir sem þeir bjóða okkur eru bara fáránlegir og þeir eru að ætlast til að við lækkum launin okkar samhliða því að hækka vinnuálag og það um alveg heilan helling. Við erum bara á launum sem jaðra við eða eru lægri en lágmarkslaun í landinu og eftir að þetta kom út þá varð bara allt vitlaust inni á Flugfreyjufélags-grúppunni okkar.“

Icelandair ætlar í hlutafjárútboð og hefur sagt að samningar við starfsfólk þurfi að liggja fyrir áður. Þórunn Elva segir að félagið skýli sér á bak við farsóttina.

„Þeir náttúrulega fela sig svolítið á bak við það að þetta sé vegna COVID og þess vegna séu svona slæmir samningar sem við þurfum að samþykkja strax en málið er bara að þeir eru búnir að bjóða nánast sömu samninga síðan haustið 2018 og það er ástæðan fyrir því að það hefur ekki verið samið í svona langan tíma. Ég held að þetta verði bara aldrei samþykkt svona nema þeir finni sér bara annað starfsfólk.“

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi