Samningafundi flugfreyja og Icelandair slitið

13.05.2020 - 12:34
Samninganefnd Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair funda hjá ríkissáttasemjara.
 Mynd: Haukur Holm
Samningafundi Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair var slitið nú rétt í þessu. Hann stóð í rétt rúma klukkustund. Samkvæmt upplýsingum frá ríkissáttasemjara hefur enginn nýr fundur verið boðaður.

Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, starfandi formaður flugfreyjufélagsins, segir að flugfreyjur hafi lagt fram tilboð 4. maí og á fundinum í gær hafi þær ítrekað að þær væru tilbúnar til viðræðna á grundvelli þess tilboðs. Icelandair hafi ekki ekki talið sig geta samið á þeim grunni að svo stöddu og fundi var því slitið.

Tugir flugfreyja komu saman utan við hús ríkissáttasemjara fyrir fundinn og tóku á móti samninganefnd sinni með dynjandi lófataki laust fyrir klukkan ellefu í morgun. Hlé var gert á samningafundi klukkan hálf tvö í nótt og hafði fundurinn þá staðið á sjöttu klukkustund.

Flugfreyjurnar tóku einnig vel á móti samninganefnd Icelandair og mynduðu hjarta með höndunum þegar sú nefnd kom til fundarins. Flugfreyjur hafa sagt að tilboð Icelandair hafi falið í sér 40 prósenta kjaraskerðingu. Því hefur forstjóri Icelandair hafnað.

 

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi