Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Samkomubannið rýmkað 25. maí - 200 manns í stað 100

Mynd: RÚV / Ágúst Ólafsson
Hámarksfjöldi fólks sem má koma saman verður tvöfaldaður 25. maí, upp í 200 manns. Sóttvarnalæknir leggur þetta til, ásamt fleiri tilslökunum. Yfirlögregluþjónn segir 25. maí verða jafnvel stærri dag en 4. maí. Enginn COVID-sjúklingur liggur nú á Landspítalanum. 

Fimm smitlausir dagar

Sá sem greindist með smit í dag er á Vesturlandi. Nú eru aðeins tólf manns í einangrun hérlendis með kórónuveirusmit. Fimm dagar eru síðan síðast greindist smit. 

Níu á spítala með eftirköst af COVID-19

Þau tímamót urðu á Landspítalanum í dag að þar en nú enginn sjúklingur smitaður af kórónuveirunni. Frá 9. mars hafa COVID-sjúklingar legið þar alla daga nema 11. mars. Flestir voru þeir 3. apríl en þá voru þeir 43.  

„En hins vegar eru níu sem eru enn að ná sér af veikindum. En það að enginn skuli liggja inni með COVID og enginn með grun og að enginn sé í sóttkví, sem er líka staðreynd, það er frábært,“ sagði Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans á upplýsingafundi Almannavarna í dag. 

Helmingur af hámarksfjölda leyfilegur í sundlaugar

Sundlaugar opna á mánudaginnm 18. maí. Hámarksfjöldi á hverjum sundstað verður helmingur af leyfilegum fjölda samkvæmt starfsleyfi hverrar laugar. Sóttvarnalæknir gerir ráð fyrir að hægt verða að auka fjöldann með einu viðbótarskrefi til 15. júní og að þann dag megi hámarksfjöldi vera í hverri laug. 

Hægt að fara í ræktina og á barinn

Þann 25. maí breytist enn meira samkvæmt tillögum sem sóttvarnalæknir sendir heilbrigðisráðherra á næstu dögum: 

„Fjöldi, sem takmarkað verður við, yrði miðaður við 200 einstaklinga og einnig að staðir muni áfram gefa einstaklingum kost á tveggja metra reglunni eins og hægt er,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. 

Þá leggur hann til að líkamsræktarstöðvar opni með helmingsfjölda gesta samkvæmt starfsleyfi. Og að fjöldinn verði svo aukinn í einu skrefi til 15. júní þegar þær mega verða fullmannaðar. 

Þá leggur Þórólfur til að barir, vínveitingastaðir og skemmtistaðir opni og megi vera opnir til klukkan ellefu eins og veitingahús. 

Á hjúkrunarheimilum á líka að slaka á hömlum á heimsóknum en það verður gert aðeins hægar en annars staðar í þjóðfélaginu. 

Á mánudaginn verður opnað fyrir heimsóknir á Landspítalann. Þær verða þó mismikið takmarkaðar eftir deildum og húsum. 

Jafnvel stærra skref en 4. maí

En það eru ekki nema tólf dagar til næstu stóru tilslakana á samkomubanninu: 

„Þetta verður alla vega ekki minna skref og jafnvel stærra skref en það sem við fórum í núna 4. maí að fara í þennan fjölda 200 manns,“ segir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra. 

Skipuleggja með Isavia

Opnun landamæranna 15. júní sem kynnt var í gær krefst mikils skipulags. Byrjað verður á Keflavíkurflugvelli en svo fylgja Seyðisfjörður, Egilsstaðir og Akureyri í kjölfarið. Gert er ráð fyrir að farþegar fari í skimun áður en þeir sækja farangur sinn þ.e.a.s. velji það ekki tveggja vikna sóttkví: 

„Við eigum eftir að setja yfir þetta með Isavia og öllum aðilum á Keflavikurflugvelli. Þeir hafa ekki verið við borðið hingað til,“ segir Víðir. 

Skriffinnska áður en fólk kemur til landsins

Hver heldurður að verði aðalhindrunin í þessu stóra verkefni?

„Það er bara margt. Ef við ætlum að horfa á ferilinn í þessu verkefni þá hefst hann hjá ferðamanninum áður en hann leggur af stað til Íslands því hann þarf að svara spurningalistum, hann þarf að gefa ákveðnar upplýsingar til þess að við getum ákveðið að þegar hann kemur til landsins hvort hann hafi valið það möguleika að fara í sóttkví eða fara í sýnatöku eða framvísa einhverjum pappírum. Þannig að þetta allt saman getur verið töluverð hindrun.“

Þeir sem koma fyrir 15. júní geta kannski farið í skimun

Eftir sýnatöku fara farþegar á sinn gististað og bíða eftir niðurstöðu sem gæti orðið hálfur sólarhringur. Ef fólk er smitað og hefur ekki í hús að venda verður farsóttarhúsið á Rauðarárstíg líklega notað. Verið er að athuga hvort þeir sem kannski koma nokkrum dögum fyrr en 15. júní til landsins geti farið í sýnatöku til að stytta tímann í sóttkví. 

Eins og stór dísilvél að koma öllu í gang á ný

En fyrir utan opnun sundlauganna á mánudaginn verður stóra skrefið fyrir fólk og fyrirtæki 25. maí: 

„Þetta er svona eins og stór dísilvél. Það tekur smátíma að koma henni á fullan gang en þetta er eins og Þórólfur hefur verið að sgja og landlæknir líka að þetta er auðvitað lýðheilsumál líka að koma hjólum atvinnulífsins í gang,“ segir Víðir.

Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan
Slegið á létta strengi fyrir upplýsingafund Almannavarna í dag.