Listinn líklega birtur á morgun eða föstudag

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Forstjóri Vinnumálastofnunar segir að skoðað verði hvort listi yfir tæplega sjö þúsund fyrirtæki á hlutabótaleið verði birtur. Persónuvernd úrskurðar að í ljósi almannahagsmuna eigi að birta listann. „Við erum nú bara að skoða þetta núna og athugum hvað við gerum. Við munum sjálfsagt birta þennan lista,“ segir Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálstofnunar. Listinn verði líklega birtur á morgun eða föstudag.

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa harðlega gagnrýnt stöndug fyrirtæki fyrir að þiggja aðstoð með hlutabótaleiðinni. Þeir hvetja Vinnumálastofnun til að grípa til aðgerða. Þannig hafa bæði forsætisráðherra og fjármálaráðherra lýst því yfir að Vinnumálastofnun eigi að birta lista yfir öll fyrirtæki sem fengu stuðning með hlutabótaleiðinni. 

Vinnumálastofnun sagðist hins vegar ekki heimild til að birta listann og leitaði til Persónuverndar sem hefur nú komist að niðurstöðu og segir að listinn skuli birtur.

„Ef stjórnvöld bjóða upp á sérstæk úrræði þar sem er verið að ráðstafa almannafé þá eðlilega þarf að vega og meta hvort huga þurfi að réttarvernd einstaklinga sem gætu þarna verið undir. En hérna er það niðurstaða Persónuverndar að almannahagsmunirnir hér séu svo ríkir að það leyfi þessa upplýsingagjöf,“ segir Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar. 

„Við erum nú bara að skoða þetta núna og athugum hvað við gerum. Við munum sjálfsagt birta þennan lista. Það tekur tíma að taka saman listann þannig að hann sé birtingahæfur. Þetta eru um 6.700 fyrirtæki sem þarna er um að ræða,“ segir Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálstofnunar.

Þannig að á morgun eða jafnvel föstudaginn sem listinn kemur?

„Já, ef hann kemur. Jú, ég á nú frekar von á því miðað við þetta álit svona við fyrstu sýn. En eins og segi, við erum aðeins að fara ofan í þetta okkar megin  og persónuverndarfulltrúinn okkar. Ég myndi vilja sjá hvað hann segir,“ segir Unnur.

Þannig að það er ekki víst að álit Persónuverndar sé það eina rétta í stöðunni?

„Ég ætla ekki svona að taka afstöðu til þess akkúrat núna,“ segir Unnur.

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi