Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Kórónuveiran er komin til allra Afríkuríkja

13.05.2020 - 16:04
epa08418945 Commuters walk to and from taxis at the Bara Taxi Rank on day 46 of the national lockdown as a result of Covid-19 Coronavirus, Johannesburg, South Africa, 13 May 2020. One of the biggest in the country, the taxi rank, is vital for people to travel to and from work in the city. The country is at level 4 of the national lockdown in its 46 day after it was implemented on 30 April 2020.  EPA-EFE/KIM LUDBROOK
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Kórónuveiran sem veldur COVID-19 sjúkdómnum er komin til allra ríkja í Afríku, síðast til Lesótó. Veiran fannst þegar skimað var eftir henni í hópi fólks sem kom frá Suður-Afríku og Sádi-Arabíu.

Lesótó er umlukt Suður-Afríku á alla vegu. Hvergi í álfunni hafa fleiri veikst af COVID-19 en þar, á tólfta þúsund manns. Því þótti með ólíkindum að ekkert smit hefði greinst í Lesótó, þrátt fyrir að fjöldi fólks færi alla jafna yfir landamærin á hverjum degi, þar á meðal nokkur þúsund manns af Basotho-ættbálknum sem búa í Lesótó og vinna í Suður-Afríku. Það var svo loks í dag að heilbrigðisráðuneyti landsins tilkynnti að smit hefði fundist þegar sýni voru tekin úr 81 ferðamanni frá Suður-Afríku og Sádi-Arabíu.

Fyrirskipun var gefin út í lok mars um að landamærum ríkjanna skyldi lokað til að koma í veg fyrir útbreiðslu kórónuveirunnar. Fjármálaráðherra Lesótó fór fram á það við íbúa landsins ,sem vildu komast heim frá Suður-Afríku, að halda sig þar. Það yrði heilbrigðiskerfi landsins ofviða ef farsóttin brytist út.

Heilbrigðisyfirvöld hafa ekki burði til að rannsaka veirusýni sem hafa verið tekin, þannig að þau þarf að senda til Suður-Afríku. Heilbrigðisráðuneytið greindi frá því í dag að 597 sýni hefðu verið tekin til þessa. 295 voru neikvæð. Niðurstaða vegna hinna hefur enn ekki borist.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV