Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Gagnaversþjófur grunaður um stórfellda dópframleiðslu

13.05.2020 - 18:43
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Maður sem hlaut tveggja og hálfs árs fangelsi í Bitcoin-málinu svokallaða í fyrra situr nú í gæsluvarðhaldi grunaður um framleiðslu á miklu magni af amfetamíni.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi frá sér tilkynningu um málið í dag þar sem fram kemur að þrír hafi á mánudag verið handteknir og úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald vegna rannsóknar á skipulagðri glæpastarfsemi og fíkniefnaframleiðslu. Fundist hafi ellefu kíló af amfetamíni, búnaður til framleiðslu þess og fjármunir.

Samkvæmt heimildum fréttastofu fannst efnið og búnaðurinn í fjölbýlishúsi við Grýtubakka í Reykjavík. Tveir Litháar eru í gæsluvarðhaldi, og auk þeirra Matthías Jón Karlsson, tæplega þrítugur maður sem í janúar í fyrra hlaut tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir innbrot og þjófnað úr nokkrum gagnaverum í Bitcoin-málinu svokallaða.

Matthías fékk næstþyngstu refsinguna í málinu á eftir Sindra Þór Stefánssyni sem var dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi. Þeir áfrýjuðu báðir dómum sínum til Landsréttar og hafa því hvorugur hafið afplánun.

Refsingar fyrir amfetamínframleiðslu geta verið þungar – í desember hlutu menn sex og sjö ára dóma fyrir að framleiða rúm átta kíló í sumarbústað í Borgarfirði.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV