Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Dýr björgunarhringur ríkisins vegna COVID-19

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Birgir Þór
Hlutabótaleiðin, brúarlán, laun til fólks í sóttkví og álagsgreiðslur til heilbrigðisstarfsfólks. Allt eru þetta efnahagslegar aðgerðir sem íslensk stjórnvöld hafa gripið til vegna kórónuveirufaraldursins. Aðgerðirnar eru án hliðstæðu og kosta í kringum 350 milljarða króna. Þótt faraldurinn sé í rénun er ljóst að það mun taka ríkissjóð Íslands nokkurn tíma að ná sér af COVID-19.

Kórónuveirufaraldurinn hefur haft gríðarleg áhrif á efnahagskerfi heimsins. Þjóðarleiðtogar og ríkisstjórnir um allan heim hafa þurft að bregðast við með áður óþekktum innspýtingum í efnahagslífið til að halda fyrirtækjum gangandi og hjálpa þeim að lifa af þrengingar vegna faraldursins. En til hvaða aðgerða hefur íslenska ríkisstjórnin gripið?

Fyrsti aðgerðapakki – 230 milljarðar

Íslensk stjórnvöld kynntu fyrsta, og jafnframt stærsta, aðgerðapakkann til að bregðast við áhrifum heimsfaraldursins 21. mars. Kostnaðurinn nemur um 230 milljörðum króna, tæplega átta prósentum af landsframleiðslu. 

Aðgerðirnar fela meðal annars í sér:

 • Hlutabótaleiðina. Ríkið greiðir allt að 75% launa fólks.
 • Brúarlán til fyrirtækja sem ríkið ábyrgist að hluta.
 • Frestun og afnám opinberra gjalda.
 • Laun fólks í sóttkví.
 • Sérstakar barnabætur í júní.
 • Ráðist í fjárfestingaátak og ríkið fjárfestir fyrir 20 milljarða aukalega.
 • Allir vinna úrræðið víkkað út, m.a. með endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna viðgerða á íbúðarhúsnæði.
 • Allir landsmenn fá stafrænt gjafabréf upp á rúmar fimm þúsund krónur til að nýta í ferðaþjónustu innanlands. 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði á fundinum að aðgerðirnar væru án allrar hliðstæðu. Hlutabótaleiðin er ein stærsta aðgerðin og með henni vildu stjórnvöld hvetja fyrirtæki til að segja fólki ekki upp heldur halda starfsfólki í gegnum þessa erfiðu tíma.

6.700 fyrirtæki hafa nýtt sér hlutabótaleiðina þegar þetta er skrifað, meðal annars stór fyrirtæki sem ekki eiga í rekstarvanda. Fjölmörg fyrirtæki hafa þrátt fyrir úrræðið þurft að grípa til fjöldauppsagna, sérstaklega í ferðaþjónustunni.

Stjórnarandstaðan studdi aðgerðir ríkisstjórnarinnar en gagnrýndi að þær væru ekki nógu umfangsmiklar. Mikilvægara væri að gera meira en minna í þessu samhengi.

Annar aðgerðapakki – 60 milljarðar

Næsti aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar var kynntur mánuði seinna, 21. apríl. Kostnaðurinn við þessar aðgerðir verður um 60 milljarðar króna þegar allt er tekið saman, að sögn Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. 

Aðgerðirnar fela meðal annars í sér:

 • Að fyrirtækjum heimilað að jafna tekjuskatt 2019 með tapi 2020.
 • Stuðningslán til lítilla og meðalstórra fyrirtækja.
 • Virkni á vinnumarkaði, úrræði til að efla fólk í atvinnuleit.
 • Geðheilbrigði í forgangi, átak gegn ofbeldi og efling fjarheilbrigðisþjónustu.
 • Álagsgreiðslur til heilbrigðisstarfsfólks vegna COVID-19.
 • Sumarúrræði fyrir námsmenn, störf, nám og frumkvöðlaverkefni.
 • Sérstakur frístundastyrkur til tekjulágra.
 • Sókn til nýsköpunar, fjárfestingar auknar, hærra hlutfall endurgreiðslu og þök hækkuð vegna rannsókna og þróunar.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra sagði á fundinum að aðallega væri verið að horfa til fyrirtækja sem hefðu þurft að loka starfsemi sinni vegna sóttvarnarráðstafana. Þá fær heilbrigðisstarfsfólk sérstaka álagsgreiðslu vegna vinnu sinnar í faraldrinum.

Þriðji aðgerðapakki – 40-60 milljarðar

Ríkisstjórnin kynnti þriðja aðgerðapakkann viku síðar, 28. apríl. Hann var sérstaklega hugsaður til að mæta vanda þeirra fyrirtækja sem hafa orðið fyrir miklu tekjutapi vegna kórónuveirufaraldursins og var sérstaklega horft til ferðaþjónustunnar. Aðgerðirnar koma til með að kosta á bilinu 40 til 60 milljarða króna.

Aðgerðirnar skiptast í þrennt:

 • Hlutabótaleiðin framlengd fram til loka júní. Þá verður leiðin framlengd til loka ágúst en miðað við að fólk verði í minnst 50 prósenta starfshlutfalli í stað 25 prósenta nú.
 • Reglur um fjárhagslega endurskipulagningu verða einfaldaðar til að auka möguleika fyrirtækja á að komast í skjól. 
 • Fyrirtæki sem misst hafa 75 prósent eða meira af tekjum sínum og sjá fram á áframhaldandi tekjutap út árið geta sótt um greiðslur úr ríkissjóði til að fjármagna launagreiðslur starfsfólks á allt að þriggja mánaða uppsagnarfresti auk orlofs sem fólk á inni.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði á fundinum að aðgerðirnar væru til að tryggja réttindi launafólks og forða fyrirtækjum frá gjaldþroti. Þá sagði hún að úthald ríkissjóðs væri ekki takmarkalaust en með því að grípa til aðgerða væri unnið að því að hafa stjórn á fordæmalausum aðstæðum.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna COVID-19 gætu tekið breytingum og erfitt er að meta hvernig þær verða útfærðar og hversu mikill kostnaður ríkissjóðs verður nákvæmlega að lokum enda eru óvissuþættirnir fjölmargir. Það er þó ljóst að björgunarhringur stjórnvalda vegna veirunnar verður dýr.