Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

COVID-19 þyngir Brexit-róðurinn

13.05.2020 - 17:00
Boris Johnson · Bretland · Brexit · Erlent · ESB
Mynd: EPA / EPA
Það væri undir öllum kringumstæðum pólitískt grettistak fyrir bresku ríkisstjórnina að ljúka útgöngu Breta úr Evrópusambandinu fyrir árslok eins og til stendur. En Brexit á tímum COVID-19 veirunnar er hálfu erfiðara verk en ella. Inn í þetta fléttast samband Breta við Bandaríkin og umheiminn.

Breska stjórnin glímir við COVID-19 og Brexit

Meðan önnur Evrópuríki nota alla sína orku í að verjast hrikalegum heilsufars- og efnahagsáhrifum COVID-19 veirunnar hefur breska stjórnin einnig við annað stórmál að etja: Brexit. Útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, er fjarri því lokið.

Í lok janúar, þegar breska stjórnin virtist á grænni grein

Lok janúar, munið – þá var heimurinn annar og Boris Johnson forsætisráðherra Breta sá framtíðina í hillingum þegar kom að því að Bretar yfirgáfu ESB formlega eftir 47 ára aðild.

,,Í kvöld yfirgefum við Evrópusambandið. Fyrir marga er þetta undursamlegt andartak vonar. Andartak, sem þeir héldu að aldrei kæmi,“ sagði forsætisráðherra. Johnson varð forsætisráðherra í júlí eftir að Brexit varð pólitískur banabiti flokkssystur hans, Theresu May. Í kosningum í desember hlaut Johnson tryggan þingmeirihluta og Brexit-leiðin virtist bein og breið.

Allt virtist svo auðvelt þetta janúarkvöld. ,,Starf stjórnarinnar, mitt starf nú, er að sameina landið og þoka því áfram. En það mikilvægasta að hafa í huga er að þetta er ekki endirinn heldur upphafið,“ sagði Johnson. Upphafið að glæstri framtíð Bretlands.

Fáir tóku eftir blaðamannafundi WHO um óþekkt veiru

Það tóku fáir eftir að daginn áður hafði yfirstjórn Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar haldið blaðamannafund, ekki þann fyrsta, til að lýsa áhyggjum sínum af útbreiðslu nýrrar veiru, sem hafði þá borist frá Kína til átján landa. Nokkrum dögum seinna var stofnunin farin að halda daglega blaðamannafundi vegna faraldursins.

Johnson gerði lengi vel lítið úr veirunni. Í skugga veiruófara stjórnarinnar er Brexit orðið eins langdregin framhaldssaga, sem enginn virðist lengur fylgjast með.

Veiran fær alla athyglina en Brexit er fjarri því frá

En raunin er auðvitað önnur. Bæði breska stjórnin og Evrópusambandið hafa hugann við lokahnykkinn, samning um framtíðarsamband Breta og ESB, sem í árslok á að koma í stað aðildar. Viðskiptasamningar eru seinlegt verk en stefna stjórnarinnar er óbreytt: að semja fyrir árslok, en ella yfirgefa ESB samningslaust.

Frá handþvotti yfir í fjarfundabúnað

Þegar samninganefndirnar hittust í fyrsta skipti í marsbyrjun var handþvottur og sótthreinsunarefni innan seilingar nóg. Næsti fundur datt upp fyrir vegna ferðabanns. Bretar kenna ESB um tafirnar að koma á fjarfundum, ESB segir Breta hafa dregið lappirnar.

200 hundruð manns í samninganefndum

Þessa vikuna funda 200 manns í fyrsta skipti við tölvurnar beggja vegna Ermasunds. Michel Barnier formaður samninganefndar ESB tísti í vikunni að nú þyrfti áþreifanlega framvindu. David Frost aðalsamningamaður Breta vill ræða viðskiptasamning, samninga um einstök efni eins og flugsamgöngur og síðan rammasamning um fiskveiðar.

ESB býður pakkalausn, Bretar vilja heldur semja í bútum

ESB býður pakkalausn, viðskiptasamning án kvóta og tolla líkt og nú er, að því tilskyldu að Bretar haldi sig við regluverk ESB. Bretar segja áframhaldandi aðlögun ekki koma til greina. ESB hefur Breta sífellt grunaða um að vilja kosti aðildar, án þess að sveigja sig að ESB-reglum, þetta að plokka úr bestu bitana.

Stórmálið er... fiskveiðar

En er þá eitthvað eitt stórmál? Já reyndar, fiskveiðar. Bretar vilja semja um veiðar frá ári til árs og svo allt hitt, gjarnan í bútum. Sjónarmið ESB er: allt í einum pakka sem innihaldi þá varanlegan aðgang fiskveiðiþjóða ESB að breskum miðum. ESB telur sitt tromp vera að Bretar hafi ekki efni á að missa ESB-markaðinn fyrir sjávarafurðir sínar.

Samningsstaðan gæti skýrst í júní

Til að hindra að allt dragist fram á síðustu stundu á að vera búið að ná ákveðnum viðmiðum í júní, einnig í fiskveiðimálum. Breskir ráðherrar hafa því viðrað að strax í sumar verði ljóst hvort það sé yfirleitt einhver samningsgrundvöllur.

Einn Brexit-undirkaflinn: viðskiptasamningar við Bandaríkin

Einn undirkafli Brexit sögunnar er viðskiptasamningur Breta og Bandaríkjanna. Vísast engin tilviljun að samningaviðræður hófust þar aftur í síðustu viku: áminning Breta um að fleiri en ESB skipti þá máli. En líka hér er flækjustigið hátt. Donald Trump Bandaríkjaforseti talar um Johnson sem sérlegan vin sinn en nú er forsetinn upptekinn af kosningum og veiruvánni. Líka spurning hvort Johnson vill tengja sig Trump um of: einangrunarstefna forsetans gengur þvert á fríverslunarstefnuna sem er haldreipi Breta utan ESB.

Nýr formaður Verkamannaflokksins slær nýjan Brexit-tón

Heima fyrir er Brexit-staðan líka breytt. Verkamannaflokkurinn kominn með öflugan leiðtoga, Keir Starmer, fyrrum Brexit-formælanda flokksins og ákafan Evrópusinna. Starmer sagðist í vikunni ekki vilja krefjast útgöngufrestunar. Stjórnin segist geta samið fyrir árslok. Það þykir honum bæði naumt og ósennilegt en vill halda stjórninni við það loforð og sjá svo hvernig henni vegni.

Og þetta er staðan í Brexit-framhaldssögunni, að bíða og sjá til hvernig bresku stjórninni vegnar með lokahnykkinn.

 

sigrunda's picture
Sigrún Davíðsdóttir