Búast við óbreyttu gengi krónunnar næsta árið

13.05.2020 - 11:20
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ekki er búist við því að gengi krónunnar lækki frekar á næstu misserum og er því spáð að gengi evru gagnvart krónu verði 160 krónur eftir eitt ár, en er núna 158. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar Seðlabanka Íslands á væntingum markaðsaðila dagana 4. til 6. maí. Leitað var til 28 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði, það eru bankar lífeyrissjóðir, verðbréfa- og fjárfestingasjóðir, verðbréfamiðlarar og fyrirtæki með starfsleyfi til eignastýringar. Svör fengust frá 27 þeirra. 

Miðað við miðgildi svara í könnuninni er þess vænst að verðbólga verði 2,2% á öðrum fjórðungi þessa árs og 2,4% bæði á þriðja og fjórða ársfjórðungi. Verðbólguvæntingar til eins, tveggja, fimm og tíu ára eru 2,5% og nánast óbreyttar frá síðustu könnun. Könnunin gefur til kynna að markaðsaðilar vænti ekki frekari lækkunar á gengi krónunnar á næstu misserum og að gengi evru gagnvart krónu verði 160 krónur eftir eitt ár.

Miðað við miðgildi svara í könnuninni búast markaðsaðilar við því að meginvextir bankans lækki um 0,5 prósentur í 1,25% á öðrum fjórðungi þessa árs. Þá vænta þeir þess að meginvextir bankans lækki um 0,25 prósentur til viðbótar fyrir lok ársins en hækki aftur á næsta ári og verði aftur orðnir 1,25% á öðrum fjórðungi næsta árs. Þeir vænta þess jafnframt að meginvextir bankans verði 1,75% eftir tvö ár. Þetta eru lægri vextir en markaðsaðilar bjuggust við í könnun bankans í janúar, áður en COVID-19 farsóttin dreifðist um allan heim. Þá væntu þeir þess að vextir yrðu 2,75% á næstu tveimur árum.

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi