Bogi biðlar til flugfreyja að skoða samninginn

13.05.2020 - 19:14
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
„Icelandair Group rær nú lífróður og höfum við því miður neyðst til þess að segja upp stórum hluta starfsfólks okkar. Við vinnum nú í kapphlaupi við tímann að því að tryggja framtíð félagsins til lengri tíma og störf okkar allra,“ segir í tölvupósti sem Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sendi félagsmönnum í Flugfreyjufélagi Íslands í dag. Hann segir mikið áhyggjuefni að ekki verði lengra komist í samningaviðræðum flugfélagsins við FFÍ.

Samningafundi Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair var slitið í hádeginu. Flugfreyjur hafa sagt að tilboð Icelandair hafi falið í sér 40 prósenta kjaraskerðingu en því hefur Bogi Nils hafnað. Segir hann að tillögur samninganefndar flugfreyja séu ekki til þess falln­ar að ná mark­miðum um að tryggja framtíð fé­lags­ins.

Mikið áhyggjuefni að ekki verði lengra komist 

Í tilkynningu sem Bogi Nils sendi til fjölmiðla í kvöld segir að niðurstaða fundarins hafi verið að ekki yrði lengra komist. „Ekki hefur verið boðað til frekari funda og ekki útlit fyrir að svo verði,“ segir í tilkynningunni. 

Einn af þeim þáttum sem verði að ganga upp til að endurfjármögnum Icelandair Group gangi eftir sé að langtímasamningar náist við flugstéttir. Það sé því mikið áhyggjuefni að ekki verði lengra komist í viðræðunum við Flugfreyjufélag Íslands. 

Róa lífróður í kapphlaupi við tímann

Bogi Nils biðlar til félaga í FFÍ að kynna sér þann samning sem Icelandair hafi lagt á borðið. Félagsmenn fengu samninginn sendan með athugasemdum frá FFÍ í gær.

„Tími okk­ar er að renna frá okk­ur. Á þess­um tíma­punkti vilj­um við veita ykk­ur upp­lýs­ing­ar um samn­ingstil­boð fé­lags­ins milliliðalaust. Það er í sam­ræmi við stefnu okk­ar um að halda starfs­fólki vel upp­lýstu,“ segir í bréfinu.

Segir aðstæður gjörbreyttar 

Telur Bogi Nils  að núgildandi samningar Icelandair og FFÍ byggi á gömlum forsendum, frá tímum þegar samkeppni á markaði var gjörólík þeirri sem nú er. 

„Okkar markmið er að gera nýja kjarasamninga sem taka mið af breyttum aðstæðum og gefa Icelandair aukinn sveigjanleika til að ná árangri en tryggja á sama tíma fyrirmyndar vinnuumhverfi og samkeppnishæf kjör til framtíðar. Flugfélög sem við berum okkur saman við, til dæmis SAS og Finnair, hafa á liðnum áratug gert sambærilegar breytingar á samningum við áhafnir.“

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi