VG mun ekki samþykkja útlendingafrumvarp án breytinga

12.05.2020 - 10:50
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Þingflokkur Vinstri grænna mun ekki samþykkja frumvarp dómsmálaráðherra um breytingu á útlendingalögum í óbreyttri mynd. Lögin verði að leyfa að hægt sé að skoða mál barna eftir aðstæðum þeirra hverju sinni. Þingmaður Pírata segir frumvarpið ábyrgðarlaust.

Rauði krossinn hefur gagnrýnt frumvarp Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra um breytingu á útlendingalögum og sagt þau í raun lögfesta endursendingu barna til Grikklands. Þingflokkur VG samþykkti frumvarp dómsmálaráðherra út úr þingflokknum með fyrirvara. 

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, lagðist gegn því að frumvarpið yrði afgreitt úr þingflokknum og hefur lýst því yfir að hún muni ekki styðja málið.

Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður VG og fulltrúi í allsherjar- og  menntamálanefnd segir að þingflokkurinn hafi efasemdir um ákveðin atriði frumvarpsins, „sem snúa að í raun að ákveðinni sjálfvirknivæðingu þegar kemur að því að senda fólk úr landi og við það erum við ekki sátt og við viljum fá því breytt,“ segir hún. „Börn sem hingað koma, koma úr mjög mismunandi aðstæðum og sum úr mjög slæmum aðstæðum þess vegna þurfi að vera hægt að skoða þessi mál,“ segir Steinunn Þóra.

Af hverju fóruð þið þá ekki einfaldlega fram á það að frumvarpinu yrði breytt áður en það yrði lagt fram?

„Ja, við ákváðum að gera bara fyrirvara við þessi ákvæði og gerðum grein fyrir honum og nú verður málið skoðað í nefnd og sjónarmið okkar hafa komið fram þannig að við höldum þeim bara til streitu í nefndavinnunni,“ segir Steinunn Þóra.

„Þá gerir maður ekki svona“

Stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt þetta atriði frumvarpsins sérstaklega. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata segir að ekki verði lengur hægt að taka tillit til aðstæðna þeirra sem hingað komi í leit að vernd því að með frumvarpinu verði útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála ekki lengur heimilt að taka mál til efnismeðferðar.

„Það þýðir engin von fyrir fjölskyldur sem við höfum nú leyft að vera, vegna þess að það eru einmitt sérstakar aðstæður í þeirra málum,“ segir Þórhildur Sunna. „Þetta er algjört ábyrgðarleysi. Ef við viljum teljast siðað og ábyrgt samfélag í samfélagi þjóða þá gerir maður ekki svona.“

Þessi frétt var uppfærð 13. maí klukkan 15:01 með upplýsingum um að Rósa Björk Brynjólfsdóttir myndi ekki styðja málið.

sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi