Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Verja einum og hálfum milljarði í markaðsátak

Mynd með færslu
 Mynd: Íslandsstofa - RÚV
Ríkið ætlar að verja 1.500 milljónum króna í markaðsátakið „Ísland - saman í sókn.“ Verkefnið er hluti af mótvægisaðgerðum stjórnvalda vegna COVID-19. Ísland verður kynnt sem áfangastaður á völdum erlendum mörkuðum í því skyni að styrkja ímynd landsins, auka eftirspurn og viðhalda samkeppnisstöðu ferðaþjónustunnar á Íslandi.  Stærsti hluti upphæðarinnar fer í birtingar á erlendum mörkuðum.

Alþjóðlega auglýsingastofan M&C Saatchi, í samstarfi við íslensku auglýsingastofuna Peel, fékk hæstu einkunn valnefndar sem fór yfir innsend tilboð fyrir markaðsverkefnið. Fimmtán tilboð bárust og valdi þrettán manna valnefnd hugmynd M&C Saatchi og Peel. Í rökstuðningi valnefndarinnar segir að hugmynd þeirra sé áhrifarík og nái að tengja saman ólíka þætti til að styrkja ímynd landsins. Skýr áhersla sé lögð á sjálfbærni og að hugmyndin tengist vel öðrum útflutningsgreinum landsins. Íslandsstofa sér um framkvæmd verkefnisins.

M&C Saatchi hefur tekið þátt í ýmsum árangursríkum herferðum til að kynna áfangastaði ferðamanna, að því er segir í fréttatilkynningu Íslandsstofu. Til að mynda hafi herferð fyrir Nýja-Sjáland, „100% Pure New Zealand“ notið mikillar velgengni og sé enn í gangi. Þá segir að stofnendur íslensku auglýsingastofunnar Peel hafi komið að markaðsherferðum „Inspired by Iceland“ sem ráðist var í eftir eldgosið í Eyjafjallajökli árið 2010. 

Mynd með færslu
Stykkishólmur. Mynd úr safni. Mynd: Jóhanns Jónsson - RUV.is