Sérútbúnir slökkvibílar fyrir Vaðlaheiðargöng

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Tveir sérútbúnir slökkvibílar til að fást við eld í jarðgöngum hafa verið teknir í notkun beggja vegna Vaðlaheiðarganga. Bílarnir eru þeir einu sinnar tegundar og kosta samtals um 80 milljónir króna.

Bílarnir voru smíðaðir í Hollandi, útbúnir þýskum búnaði. Vaðlaheiðargöng ehf. fjármagna kaupin fyrir Slökkvilið Akureyrar og Slökkvilið Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar.

Sérstaklega hannaðir til að geta brugðist hratt við

Öll hönnun bílanna miðar að því að geta hafið aðgerðir á sem allra skemmstum tíma. „Það sem við höfum lært er að ef kemur upp eldur í jarðgöngum þá er bara númer eitt, tvö og þrjú að slökkva eldinn áður en maður gerir neitt annað,“ segir Ólafur Stefánsson, slökkviliðsstjóri á Akureyri. „Þannig að það sem þessi bíll á að vera sérhannaður í er að keyra eins hratt og þú getur á vettvang og slökkva eldinn.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Slökkviliðsstjórarnir Ólafur Stefánsson og Bjarni Höskuldsson

Mjög vel útbúnir

Til að tryggja öryggi slökkviliðsmanna er sérstakt loftkerfi í bílunum sem þeir tengjast meðan keyrt er inn í reykfyllt göng svo ekki þurfi að eyða súrefni af kútum sem nota þarf við slökkvistarfið. Þá er í þeim hitamyndavél sem hjálpar við að bjarga fólki eða komast að eldi og skjár sem tengdur er myndvél svo bílstjórinn geti byrjað að slökkva eld áður en áhöfnin kemur sér fyrir utan bílsins. „Þannig að þetta er miklu öruggara farartæki heldur en hefðbundinn slökkviliðsbíll eins og við höfum þekkt hann í gegnum tíðina,“ segir Bjarni Höskuldsson, slökkviliðsstjóri í Þingeyjarsveit.

Nýtast við útköll utan ganganna

En þó bílarnir séu fyrst og fremst hugsaðir fyrir eldsvoða í jarðgöngum nýtast þeir við önnur útköll. Þeir eru hraðskreiðari og sneggri en venjulegir slökkvibílar og með fullkomnu slökkvikerfi og björgunarklippum sem nýtast bæði við húsbruna og bílslys.

Samskonar bílar hvergi annarsstaðar til

Og Ólafur segir að sams konar bílar séu hvergi annars staðar til og meðal annars fylgist kollegar í Noregi með því hvernig bílarnir reynast hér. „Það er einmitt málið, það er eiginlega engin fyrirmynd. Það er klárlega ekki til neinn svona búnaður hér á landi og við höfum ekki fundið neina fyrirmynd af þessu erlendis beint. Við erum svolítið að safna saman hugmyndum úr mörgum áttum.“