Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Leiðangur til að rannsaka norsk-íslenska síldarstofninn

12.05.2020 - 12:16
Mynd með færslu
Árni Friðriksson RE. Mynd: Smári Geirsson/svn.is
Vísindamenn Hafrannsóknastofnunar hófu um helgina þátttöku í árlegum rannsóknarleiðangri sem ber yfirskriftina „Vistfræði Austurdjúps.“ Megin viðfangsefnið er norsk-íslenski síldarstofninn.

Íslenski hluti leiðangursins er farinn á rannsóknarskipinu Árna Friðrikssyni RE, sem hélt úr höfn á sunnudag. Auk þess taka rannsóknarskip frá Noregi, Færeyjum, Danmörku og Rússlandi þátt í verkefninu.

Leiðangurinn er skipulagður af Alþjóðahafrannsóknaráðinu (ICES) og hefur verið farinn árlega síðan 1995. Meginmarkmiðið er að meta magn og útbreiðslu norsk-íslenskrar síldar og fleiri uppsjávartegunda. Auk þess er ástand hafsins og vistkerfisins kannað, m.a. hitastig og magn átustofna. Niðurstöður úr leiðanginum eru nýttar við gerð stofnmats fyrir norsk-íslenska síld.

Rannsóknarsvæðíð er Austurdjúp ásamt austur- og norðausturmiðum og hér er hægt að fylgjast með ferðum Árna Friðrikssonar í leiðangrinum.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV