Ísraelsher reif niður heimili tveggja kvenna

Mynd: AP / AP
Ísraelski herinn reif niður heimili tveggja kvenna nærri Ramallah í Palestínu í morgun eftir að dómstóll hafnaði beiðni um það yrði ekki rifið. Húsið var rifið vegna þess að sonur annars eigenda þess er sakaður um hafa myrt ísraelska stúlku.

Það var enn myrkur þegar Ísraelsher kom í þorpið Kobar eldsnemma í morgun, vopnaður tveimur jarðýtum. „Þeir köstuðu náttúrlega táragashylkjum og rotsprengjum á götur og húsasund í þorpinu. Svo komu jarðýturnar og þeir fóru að ryðja niður húsinu. Við systir mín eigum þette hús,“ segir Wedad Barghouhti, prófessor í fjölmiðlafræði við Birzeit háskóla um atburði morgunsins.

Refsing fyrir glæp sonar hennar

Ellefta febrúar tjáði herinn þeim að til stæði að rífa húsið. Þær systur reyndu þá að fá dómstóla í Ísrael til þess að snúa ákvörðuninni en það gekk ekki eftir. Ástæða þess að heimili þeirra var jafnað við jörðu er sú að 22 ára sonur Wedad Barghouhti er sakaður um að hafa myrt 17 ára gamla ísraelska stúlku í fyrra. Samkvæmt tölfræði sem ísraelsku samtökin B´Tselem tóku saman hafa yfir eitt þúsund og fimm hundruð palestínsk íbúðarhús verið jöfnuð við jörðu síðustu fimmtán árin. Þessi stefna ísraelskra stjórnvalda hefur verið harðlega gagnrýnd af mannréttindasamtökum.

Mynd með færslu
 Mynd: AP
Ísraelskur hermaður var borinn ti grafar í dag.

Vesturbakkinn sem tilheyrir Palestínu hefur verið undir hernámi Ísraels í yfir fimmtíu ár og það er erfitt að sjá að samið verið um frið milli ríkjanna í náinni framtíð. Í dag var ísraelskur hermaður borinn til grafar, hann var í hersveit sem gerði áhlaup nærri borginni Jenin á Vesturbakkanum í morgun þar sem átti að handtaka fjóra Palestínumenn. Hann lést þegar hann fékk stein í höfuðið. Herinn leitar enn sökudólgsins en ellefu hafa verið handteknir vegna málsins.