Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hvetur hið opinbera til að kaupa Hótel Gíg við Mývatn

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson
Vatnajökulsþjóðgarði býðst að kaupa Hótel Gíg í Mývatnssveit undir gestastofu. Sveitarstjóri Skútustaðahrepps segir að það yrði mikilvæg viðspyrnuaðgerð gegn áhrifum farsóttarinnar og hvetur hið opinbera til að grípa tækifærið.

Við stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs var ákveðið að setja á fót gestastofur í öllum sveitarfélögunum sem eiga aðild að þjóðgarðinum. Slíkar gestastofur eru í Ásbyrgi, á Skriðuklaustri, á Höfn, í Skaftafelli og á Kirkjubæjarklaustri. Eftir situr Mývatnssveit.

Forgangsverkefni hjá sveitarfélaginu

Vatnajökulsþjóðgarði stendur nú til boða að kaupa Hótel Gíg í Mývatnssveit undir gestastofu. Þorsteinn Gunnarsson sveitarstjóri Skútustaðahrepps hvetur hið opinbera til að grípa tækifærið, Hótel Gígur sé á einstökum stað, á vatnsbakkanum með útsýni yfir Mývatn og Laxá.

Auk þess myndi það rúma aðrar opinberar stofnanir í Mývatnssveit sem eru á hrakhólum með húsnæði. Verkefnið telst til forgangsverkefna sveitarfélagsins í viðspyrnuaðgerðum og uppbyggingu í kjölfar heimsfaraldursins sem sveitarfélagið fer illa út úr.

Að hrökkva eða stökkva

30,9% atvinnuleysi er spáð í Skútustaðahreppi í maí og með kaupunum geta skapast verkefni, til dæmis breytingar á húsnæði. Fulltrúar Vatnajökulsþjóðgarðs skoðuðu húsnæðið í síðustu viku. Næst er von á fulltrúum frá ráðuneytunum og ríkiseignum svo Þorsteinn segir þetta í góðum farvegi.

Það liggi fyrir að húsnæðið standi undir öllum væntingum og henti vel undir starfsemina, nú sé að hrökkva eða stökkva því ekki sé víst að slíkt tækifæri bjóðist aftur. „Af því að hér í Mývatnssveit er ekki mikið byggingarland fyrir gestastofur af þessu tagi“ segir Þorsteinn.