Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

800 milljóna rekstrarhalli Landspítala í upphafi árs

12.05.2020 - 09:35
Mynd með færslu
 Mynd: Landspítali/Þorkell Þorkelsso
Tekjuhalli Landspítalans var rúmlega 800 milljónir króna á fyrstu þremur mánuðum þessa árs. Launakostnaður var rúmum 600 milljónum meiri en gert var ráð fyrir á þessum þremur mánuðum.

Þetta kemur fram í starfsemisupplýsingum spítalans fyrir mars. Þrátt fyrir að launakostnaður hafi verið svona mikið umfram áætlanir þá voru tekjur spítalans 57 milljónum yfir áætlun. Öll svið spítalans voru hins vegar yfir áætlunum í gjöldum.

Samkvæmt bráðabirgðauppgjöri fyrir janúar - mars 2020 var mesti hallinn undir liðnum „utan sviða“ þar sem reksturinn var 290 milljónir eða 153% yfir áætlunum. Þjónustusvið var 4,5% yfir áætlunum, aðgerðasvið 2,9% yfir, meðferðarsvið 2,3% yfir og skrifstofa spítalans var 2% yfir áætlunum. Þegar það er talið saman var tekjuhallinn 801,9 milljónir króna á fyrstu þremur mánuðum ársins.

Rekstrarhalli mikið til umræðu

Launakostnaður var á öllum sviðum stærsta frávikið. Utan sviða spítalans reyndist launakostnaður 260 milljónum meiri en gert var ráð fyrir. Næst kemur aðgerðasvið þar sem laun voru 245 milljónum meiri en áætlað var, 72 milljónum meiri á meðferðarsviði, og 13 milljónum meiri á þjónustusviði og á skrifstofu.

Rekstrarhalli Landspítalans var töluvert til umræðu í vetur. Meðal annars var greint frá því að spítalann vantaði 500 milljónir króna á ári til að takast á við vanreiknaðar launahækkanir lækna eftir kjarasamninga sem skrifað var undir 2017. Þá greindi spítalinn frá því að vanreiknaðar kjarabætur allra heilbrigðisstarfsmanna á spítalanum væri um milljarður á ári. 

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Páll Matthíasson, forstjóri spítalans.

COVID-19 haft mikil áhrif

Samkvæmt lykiltölum í skýrslunni kemur fram að 2.519 einstaklingar hafa beðið í þrjá mánuði eða á lengur á biðlista eftir meðferð á spítalanum. Það er 43% aukning frá því á sama tíma í fyrra. Alls voru 4.415 einstaklingar á biðlista samkvæmt tölum frá 14. apríl, en voru 3.772 á sama tíma í fyrra. Spítalinn hefur þurft að fresta alfarið valkvæðum aðgerðum vegna kórónuveirufaraldursins.

Þá hefur faraldurinn haft áhrif á ýmsar tölur í rekstrinum, til að mynda var fækkun á komum á bráðamóttöku í mars í ár miðað við í fyrra.