Umdeildur áhrifavaldur gerist lærifaðir

Mynd með færslu
 Mynd: James Charles - YouTube

Umdeildur áhrifavaldur gerist lærifaðir

11.05.2020 - 11:49
Áhrifavaldurinn umdeildi, James Charles, leitar að næsta stóra áhrifavaldi Bandaríkjanna í nýjum raunveruleikaþáttum, Instant Influencer. Í þáttunum vonast sex ungir förðunarfræðingar til þess að ná að sanna sig fyrir James sem reynir á sama tíma að miðla til þeirra af sinni reynslu í bransanum.

James er 21 árs bandarískur áhrifavaldur og förðunarfræðingur sem er hvað þekktastur fyrir YouTube rás sína. Þar er hann með 18,7 milljónir fylgjenda, fleiri en nokkur annar „beauty-gúrú“. Hann hóf ferilinn í desember árið 2015 og hafði safnað 16 milljónum fylgjenda í maí í fyrra þegar stærsti YouTube skandall sögunnar varð til þess að hann tapaði meira en milljón fylgjendum á tæpum sólarhring og alls heilum þremur milljónum áður en storminn lægði. 

Ástæðan fyrir þessu sögulega fylgjendatapi var myndband fyrrverandi samstarfsfélaga hans, Tati Westbrook. Í myndbandinu, sem var 43 mínútur og hefur nú verið fjarlægt af YouTube, gaf Westbrook upp fjölmargar ástæður fyrir því að hún vildi ekki lengur vera tengd við James og hugðist ekki eiga samskipti við hann framar. Hann hafði nefnilega auglýst hárvítamín frá fyrirtæki sem var helsti samkeppnisaðili vítamínfyrirtækis Westbrook og hún sakaði hann um að vera falskan svikara. 

Eftir að fyrra afsökunarmyndband hans féll í grýttan jarðveg og komst á topp tíu lista yfir þau myndbönd sem flestir hafa „dislækað“ á YouTube, birti James 40 mínútna langt útskýringar- og afsökunarmyndband þar sem hann fór yfir þær athugasemdir sem Westbrook hafði sett fram. Í kjölfarið urðu margir sannfærðir um að Westbrook hefði gert úlfalda úr mýflugu og jafnvel logið. Charles hefur nú endurheimt fylgjendafjölda sinn og rúmlega það.

Með þessa reynslu á bakinu ákvað James að leggjast í framleiðslu raunveruleikaþátta í samastarfi við YouTube. Þættirnir heita Instant Influencer og fylgjast með sex ungum þátttakendum sem dreymir um að gera förðun að atvinnu sinni. Það er þó meira en bara förðunin sem skiptir máli ef fólk ætlar að vera topp áhrifavaldar. Þeir þurfa auðvitað að hafa einhverja hæfileika þegar kemur að förðun en það sem James segir skipta mestu máli sé sterkur persónuleiki fyrir framan myndavélina og að viðkomandi getir átt í samskiptum við fylgjendur og selt þeim vörur. 

Því eru ýmsar þrautir lagðar fyrir keppendur í Instant Influencer. Í fyrsta þætti þurfa þau meðal annars að taka upp YouTube myndband þar sem þau reyna að selja „fylgjendum“ sínum ákveðna vöru og í nýjasta þættinum, sem kom út síðastliðini föstudag, þurftu þau að taka upp mínútu langt afsökunarmyndband þar sem þau báðust afsökunar á tilbúnum skandölum á borð við það að hafa sett of margar auglýsingar í síðasta afsökunarmyndband sitt og að hafa verið gripin við að eiga við myndir sem þau birtu af sér á netinu.

Mynd með færslu
 Mynd: James Charles - YouTube
Keppendurnir í Instant Influencer

Þrátt fyrir að Instant Influener séu raunveruleikaþættir með nægu drama hefur James sagt í viðtölum að hann vonist til þess að slá nýjan tón með þáttunum. Þannig fá þeir sem detta úr keppni að vita það í einlægu samtali við James sjálfan þar sem hann vildi að allir gætu dregið lærdóm af þátttöku sinni og skilið af hverju þeir væru sendir heim. 

Hann vonar sömuleiðis að þættirnir verði til þess að samfélagið fari að bera meiri virðingu fyrir þeim sem eru áhrifavaldar. Hann geri sér þó grein fyrir að það muni taka tíma og að það verði alltaf fólk sem finnist starfsgreinin undarleg en vonandi geti þættirnir gefið fólki innsýn inn í þá vinnu sem felist í starfi áhrifavaldsins.