James er 21 árs bandarískur áhrifavaldur og förðunarfræðingur sem er hvað þekktastur fyrir YouTube rás sína. Þar er hann með 18,7 milljónir fylgjenda, fleiri en nokkur annar „beauty-gúrú“. Hann hóf ferilinn í desember árið 2015 og hafði safnað 16 milljónum fylgjenda í maí í fyrra þegar stærsti YouTube skandall sögunnar varð til þess að hann tapaði meira en milljón fylgjendum á tæpum sólarhring og alls heilum þremur milljónum áður en storminn lægði.
Ástæðan fyrir þessu sögulega fylgjendatapi var myndband fyrrverandi samstarfsfélaga hans, Tati Westbrook. Í myndbandinu, sem var 43 mínútur og hefur nú verið fjarlægt af YouTube, gaf Westbrook upp fjölmargar ástæður fyrir því að hún vildi ekki lengur vera tengd við James og hugðist ekki eiga samskipti við hann framar. Hann hafði nefnilega auglýst hárvítamín frá fyrirtæki sem var helsti samkeppnisaðili vítamínfyrirtækis Westbrook og hún sakaði hann um að vera falskan svikara.
Eftir að fyrra afsökunarmyndband hans féll í grýttan jarðveg og komst á topp tíu lista yfir þau myndbönd sem flestir hafa „dislækað“ á YouTube, birti James 40 mínútna langt útskýringar- og afsökunarmyndband þar sem hann fór yfir þær athugasemdir sem Westbrook hafði sett fram. Í kjölfarið urðu margir sannfærðir um að Westbrook hefði gert úlfalda úr mýflugu og jafnvel logið. Charles hefur nú endurheimt fylgjendafjölda sinn og rúmlega það.