Sveitarstjórnir róa lífróður - Vilja stuðning ríkisins

11.05.2020 - 21:06
Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og bæjarstjóri í Hveragerði. - Mynd: RÚV / RÚV
Sveitarstjórnir landið um kring róa nú lífróður vegna minnkandi tekna og hækkandi útgjalda sem rekja má til áhrifa af kórónuveirufaraldrinum, að sögn Aldísar Hafsteinsdóttur, formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga og bæjarstjóra í Hveragerði. Hún segir brýnt að ríkisstjórnin lýsi formlega yfir stuðningi við sveitarfélögin.

„Við erum strax að sjá lækkun á útsvari og mjög mikla sums staðar. Við erum að sjá líka lækkun á jöfnunarsjóðstekjum. Það er fjöldi sveitarfélaga sem reiðir sig á tekjur úr Jöfnunarsjóði því að honum er ætlað að sjá til þess að sveitarfélög séu svona nokkurn veginn jafn sett til að veita íbúum sambærilega þjónustu,“ sagði Aldís í Kastljósi í kvöld. 

Hér má horfa á Kastljós í heild sinni. 

Þegar hafa framlög úr sjóðnum verið lækkuð um 12,5 prósent í tveimur flokkum og sveitarfélögin munar um það, segir hún. „Þannig að ég held að allar sveitarstjórnir, hringinn í kringum landið, séu að róa lífróður og velta fyrir sér hvernig þeim eigi að vera mögulegt að halda úti, hreinlega, lögbundinni þjónustu.“  

Telja að 40 til 60 milljarða þurfi til hjálpar

Aldís segir morgunljóst að sveitarfélögin verði að fá yfirlýsingu frá ríkisstjórninni um að hún standi með þeim. Það hafi verið gert á hinum Norðurlöndunum þar sem ríkisstjórnir hafi séð til þess að sveitarfélögin geti veitt þá þjónustu sem þeim beri. „Síðan þarf að horfa til kostnaðar sem mun falla til og tekjufalls sem virðist verða reyndin.“ Sveitarfélögin hafa lagt áherslu á að ríkið greiði eingreiðslu til allra svietarfélaga og beiti einnig sértækum aðgerðum, til dæmis vegna aukins fjölda umsókna um fjárhagsaðstoð, sem sé raunin þessa dagana. 

Sveitarfélögin eru mis vel stödd til að mæta þeim áskorunum sem þau standa nú frammi fyrir, og eins hafi þau mis mikil tækifæri til að auka tekjur sínar. Það sé þó ekki komið að þeim tímapunkti að þau geti ekki uppfyllt skyldur sínar, að sögn Aldísar. Ýmsar sviðsmyndir hafi verið teiknaðar upp og talið er ríkið þurfi að leggja til um 40 til 60 milljarða til að koma sveitarfélögum til hjálpar. 

Vilja sértækar aðgerðir þar sem atvinnuleysið er mest

Þá segir Aldís mjög brýnt að grípa til sértækra aðgerða á þeim landsvæðum þar sem atvinnuleysið hefur rokið upp úr öllu valdi, eins og til dæmis á Suðurnesjum og í Vík. Á Suðurnesjum búi margir og þetta sé því mikill fjöldi fólks sem hafi misst vinnuna. Óttast sé að nokkuð stór hluti fólks sem missi vinnuna þurfi að óska eftir fjárhagsaðstoð frá sínum bæjarfélögum. „Þá þarf auðvitað að grípa tl aðgerða á þessum stöðum,“ segir hún. Í Vík geti farið svo að atvinnuleysið verði allt að 50 prósent, sem sé hlutfall sem ekki hafi þekkst áður hér á landi.