„Smekklaust“ að velja sígarettumyndina af Bubba

Mynd með færslu
Upphaflega var kynningarefni Borgarleikhússins svona og Bubbi með sígarettu í munninum. Mynd: borgarleikhus.is

„Smekklaust“ að velja sígarettumyndina af Bubba

11.05.2020 - 07:34

Höfundar

Tómas Guðbjartsson, prófessor í skurðlækningum við Háskóla Íslands, segir að það hafi verið smekklaust að velja umdeilda sígarettu-mynd af Bubba Morthens til þess að auglýsa söngleik Borgarleikhússins, 9 líf. Hann tekur skýrt fram að ritskoðun sé honum ekki að skapi og að listin eigi að vera ögrandi. „Sömuleiðis er það klúður hjá Borgarleikhúsinu að samþykkja þessa mynd líkt og láta fjarlægja sígarettuna í stað þess hreinlega að skipta um mynd,“ skrifar Tómas.

Það vakti mikla athygli þegar í ljós kom að Borgarleikhúsið hafði látið fjarlægja sígarettu úr munnviki Bubba Morthens í auglýsingu fyrir söngleikinn. Myndin birtist fyrst í tímaritinu Samúel. Fjöldi fólks mótmælti þessu á samfélagsmiðlum og birti gamlar myndir af sér á Facebook þar sem það sást með sígarettu í munninum. 

Tómas Guðbjartsson, prófessor í skurðlækningum við Háskóla Íslands, hættir sér inn umræðuna um sígarettu-myndina og undrast að akkúrat þessi mynd skuli hafa verið valin. „ Það eru til þúsundir af flottum myndum af Bubba og algjörlega óþarfi að sýna hann reykjandi, enda löngu hættur að reykja og í dag þekktur fyrir að tengja sig við hollan lífsstíl.“ Það hafi verið klúður hjá Borgarleikhúsinu að samþykkja þessa mynd, líkt og að fjarlægja sígarettuna í stað þess að skipta um mynd. 

Tómas bendir á að reykingar séu dauðans alvara. Þær eru taldar kosta íslenskt þjóðfélag allt að 80 milljörðum á ári. „Annað algengasta krabbamein á Íslandi, lungnakrabbamein, er í 90% tilfella rakið beint til reykinga.“ 140 Íslendingar látist úr því , fleiri en nokkru öðru krabbameini. „Lungnakrabbameinssjúklinga hitti ég á hverjum degi og engu sjá þeir jafn mikið eftir og að hafa byrjað að reykja.“ 

Hann bendir á að Ísland hafi náð góðum árangri á undanförnum árum í baráttunni við reykingar. Mörg ríki hafi sett setja ströng lög en það hafi ekki þurft hér á landi.  „Þessi árangur í reykingavörnum hefði aldrei náðst án mikilla takmarkana á aðgengi og háu tóbaksverði.

En þótt auglýsingin teljist klárlega ekki ólögleg, segir Tómas, þá sé hún „hallærisleg og óþörf.“ Þá er hann undrandi á því að fullt af fólki skuli hafa sett inn mynd af sér reykjandi á Facebook - Bubba til stuðnings. „Sennilega hefur þó tilgangi auglýsingastofunnar verið náð - þ.e. að vekja athygli á söngleiknum - og selja fleiri miða.“

Baltasar Kormákur, kvikmyndaleikstjóri, sagði í Vikunni hjá Gísla Marteini á föstudag,  sígarettu-málið sýndi að samfélagið væri komið á vafasama braut. Mikilvægt væri að listaverkið væri ekki beygt undir einhvers konar lýðheilsumarkmið. „Þetta er náttúrulega períóða og við erum komin á einhvern stað þar sem þessi hystería og Facebook-árásir sem fólk leggst í ef allt er ekki samkvæmt þeirra stöðlum, eru orðnar óþolandi.“

Brynhildur Guðjónsdóttir, borgarleikhússtjóri,  sagði í samtali við fréttastofu fyrir helgi að leikhúsinu hefði borist fjöldi ábendinga. „„Ekki ætlum við að vera að hvetja til lýðheilsuspillandi athafna en myndin er íkonísk og við í leikhúsinu erum alltaf að segja þessa sögu einu sinni var. Þetta er tíðarandi, þetta er rosalega flott plakat.“

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin
Tómas Guðbjartsson

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Listin getur aldrei orðið lýðheilsustofnun“

Leiklist

Ljósmyndarinn ósáttur við breytinguna á Bubba-myndinni

Borgarleikhúsinu barst kæra vegna sígarettunnar

Menningarefni

Breyttu mynd af Bubba eftir ábendingar