Samningur við Eflingu kann að hafa áhrif á fleiri hópa

11.05.2020 - 10:09
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi, segir sveitarfélagið sátt við samninginn sem náðist við Eflingu seint í gærkvöld. Samningurinn snúi sérstaklega að þeim lægst launuðu. Skoðað verði sérstaklega hvort samningurinn hafi áhrif á fleiri störf hjá bænum. 

Efling og Samband íslenskra sveitarfélaga undirrituðu kjarasamning hjá Ríkissáttasemjara laust fyrir miðnætti í gærkvöld. Verkfalli félagsmanna Eflingar í Kópavogi, Seltjarnarnesi, Mosfellsbæ og Ölfusi hefur því verið frestað og starfsmenn mæta til vinnu í dag. 

„Í þessu tilviki þá er verið að leggja áherslu á lægst launuðu störfin og þessi samningur er gerður í anda lífskjarasamnings þar sem Sambandið hefur samið, held ég, við  47 félög á sama grunni. En ég held að það hafi nú verið almenn sátt í samfélaginu með það að horfa sérstaklega til þeirra sem hafa verið á lægstu kjörunum,“ segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi.  

Félagsmenn í Eflingu sem voru í verkfalli starfa flestir í skólum bæjarins eða heimaþjónustu. 

„En svo auðvitað eins og gengur þá þurfum við að horfa kannski til fleiri þátta í þessu samhengi. Hér er líka rekin jafnlaunastefna þannig að þetta getur hugsanlega haft áhrif á fleiri hópa. Við erum að fara betur ofan í það,“ segir Ármann. 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi