Reisa gróðurhús úr umbúðum

11.05.2020 - 08:30
Mynd: RÚV / RÚV
„Hér erum við með einnota umbúðir sem verða verðmætari við breytt ástand,“ segir Jón Hafþór Marteinsson sem smíðar til gróðuhús úr svokölluðum bömbum, þúsund lítra plasttönkum sem eru notaðir fyrir flutning á allsskonar vökva.

Landinn heimsótti Hafþór og son hans Franz sem setja húsin saman á verkstæði í Hafnarfirði en hugmyndin kviknaði fyrir nokkrum árum í  Bolungarvík. „Pabbi bara gaf mér og systrum mínum verkefni að  búa til gróðurhús úr rusli sem við fundum á  jörðinni og það kom bara nokkuð vel út,“ segir Franz.

Hafþór sá að það var tilvalið að nýta bambana, eða IBC tankana, sem safnast oft upp, en þá er bæði flókið að endurvinna og dýrt að farga. „Við tökum þetta bara allt í sundur og við notum hverja skrúfu alftur ekkert sem fer til spillis,“ segir Hafþór. Þeir smíða úr grindunum og skera kútana í sundur sem eru þá hentugir undir plöntur. Með því að setja vatn í tankana þyngist húsið en hefur einnig temprandi áhrif inni í gróðurhúsinu. 

Í sex fermetra gróðurhús fara grindur af sjö bömbum og fjórir kútar, sem hentar vel þar sem Hafþór endurnýtir ekki kúta sem hafa geymt eiturefni - en getur þá nýtt grindurnar. Nú þegar hafa risið um fimmtán bambahús og Hafþór er rétt að byrja. „Minn draumur er að sjá þetta í öllum skólum og að krakkar kunni að rækta sinn eigin mat. [...] Ég kann sjálfur ekki að rækta en ég kann að smíða svo þetta er mitt framlag til að koma þessari hugsun áfram.“
 

 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi