RARIK bíður eftir eignarnámi til að klára hitaveitu

11.05.2020 - 09:24
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Eigendur tveggja jarða í Hornafirði neita að leyfa RARIK að fara um jarðirnar með hitaveitulögn nema samið sé um bætur. Forstjóri RARK segir að eitt verði yfir alla að ganga. RARIK bjóði hærri bætur en landeigendur fengju eftir eignarnám.

RARIK er að hitaveituvæða Hornafjörð til að geta aflagt svokallaða fjarvarmaveitu sem hitar vatnið með rafmagni eða olíu og dælir um hluta bæjarins. Verktakar eru langt komnir með að sjóða saman stofnlögn frá jarðhitasvæði í Hoffelli að Höfn en RARIK hefur ekki fengið leyfi til að fara í gegnum jarðirnar Akurnes og Fornustekki. „Það var í rauninni ekki um neina aðra leið að ræða. Við völdum leið sem mest með þjóðveginum þannig að sem flestir íbúar í Nesjum ættu möguleika á að tengjast hitaveitunni. Við náðum ekki saman um bætur. Við náðum sem sagt saman við alla aðra landeigendur en ekki við þessa. Og þess vegna erum við í þeirri stöðu að við þurftum að óska eftir að fá eignarnám,“ segir Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK

Eignarnámsbeiðni RARIK hefur verið til meðferðar í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í átta mánuði. Á spýtunni hangir líka ljósleiðari sem sveitarfélagið Hornafjörður leggur samhliða.

RARIK hafi aðeins boðið staðlaðan samning

Sveinn Rúnar Ragnarsson, bóndi í Akurnesi, segir að RARIK hafi ekki sýnt raunverulegan vilja til að semja heldur aðeins boðið staðlaðan samning. Samkvæmt honum fengi Akurnes rúmar 360 þúsund krónur í bætur. Til að tengjast hitaveitunni þyrfti jörðin tvær heimæðar sem myndu kosta 2,4 milljónir án virðisaukaskatts. Þá ætti eftir að leggja í kostnað við að nýta vatnið í húsum. Landeigendur telji það grundvallarrétt að fá að semja um verð fyrir not af landi og þeir hafi sent tillögu að lausn sem ekki hafi verið svarað.

Tryggvi Þór, forstjóri RARIK, segir að fyrirtækið verði að nota viðmiðun þegar bætur eru greiddar. „Við verum auðvitaða gæta samræmis. Við erum að bjóða landeigendum meira en mönnum hafa verið dæmdar eignarnámsbætur. Og við bjóðum þessum landeigendum það sama og öðrum. Við teljum að þarna sé um samfélagslegt verkefni að ræða og teljum reyndar að tjónið sem þessi landeigendur verða fyrir sé ekki verulegt og ætti að vera auðvelt að bæta. Við erum að grafa þetta í jörð alveg við veg, í veghelgunarsvæði Vegagerðarinnar. Þannig að ég sé ekki að pípan verði fyrir neinum.“

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV