Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Kemur til greina að prófa fólk fyrir komuna til Íslands

11.05.2020 - 19:30
Til greina kemur að fólk sem greinist neikvætt eða er batnað af sjúkdómnum fái að sleppa sóttkví við komuna til landsins.

Tillögur um hvernig ferðatakmörkunum verður háttað eru ekki tilbúnar og því er lagt til að núverandi fyrirkomulag gildi til 15. júní, en mögulega skemur. Það þýðir að áfram þurfa allir sem koma til landsins að fara í tveggja vikna sóttkví.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að til greina komi að ferðalangar geti farið í sýnatöku áður en lagt er af stað til landsins og að þeir fái þá að sleppa sóttkví. „Það eru sumar þjóðir sem krefjast þess og já, menn eru bara að skoða það líka,“ segir Þórólfur og heldur áfram. „Eða þá - eigum við að taka próf hérna úr öllum sem koma? Öllum sem að við teljum að gætu verið smitandi? Það er líka annar kostur. Eigum við að semja við aðrar þjóðir um að íbúar þeirra komist hér inn án þess að fara í próf eða framvísa vottorði? Já, það er möguleiki,“ segir Þórólfur.

Hann nefnir þar sem dæmi Grænland og Færeyjar, þar sem engin smit greinast lengur. Eins komi til greina að fólk sem er batnað af sjúkdómnum þurfi ekki að fara í sóttkví. 

Sjá einnig: Skoða möguleikann á ferðafrelsi milli Norðurlandanna

Hópsýking í Suður-Kóreu hefur verið rakin til næturlífins. Spurður um hvort það megi opna skemmtistaði hér á landi þann 25. maí, segir Þórólfur að það liggi ekki fyrir.  „Það er svona einn af þeim hlutum sem er verið að skoða, hvort að það eigi að bíða með það, en ég er ekki búinn að ákveða það fyrir mitt leyti en að er ráðherra sem ákveður það á endanum.“

Þórólfur segir ekki koma til greina að minnka fjarlægðartakmarakanir úr tveimur metrum í einn, líkt og Danir og Norðmenn gera.

Enginn greindist með COVID-19 fjórða daginn í röð. Einungis einn er á sjúkrahúsi með sjúkdóminn og hafa ekki verið svo fáir síðan 12. mars. Aftur á móti eru enn níu inniliggjandi sem er batnað af sjúkdómnum en eru að fást við eftirköst hans.