Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Hvetur ráðherra til að skoða ný gögn um grásleppu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Formaður Atvinnuveganefndar Alþingis segir að í ljósi nýrra gagna sem nefndin hafi aflað, verði að meta hvort endurskoða eigi ráðgjöf um grásleppuveiðar á vertíðinni. Veiðarnar voru stöðvaðar nær fyrirvaralaust um mánaðarmótin.

Ákvörðun sjávarútvegsráðherra um stöðvun grásleppuveiða 30. apríl hefur verið harðlega gagnrýnd. Og um leið dregin í efa ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um veiðarnar.

Hafró og ráðherra skylt að rýna ný gögn um málið

Atvinnuveganefnd Alþingis hefur fjallað um þetta undanfarið og Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður nefndarinnar, segir að þar hafi komið fram upplýsingar sem verði að skoða betur. „Niðurstaða okkar í atvinnuveganefnd, eftir umfjöllun um málið og að fengnum gögnum og fjölda gesta sem við fengum fyrir nefndina, er að það séu komin fram þannig gögn að Hafrannsóknastofnun og sjávarútvegsráðherra sé skylt að rýna þessi gögn vel og skoða í ljósi þeirra hvort ekki sé ástæða til að endurmeta ráðgjöf um hrognkelsaveiði.“

„Fullt tilefni til að skoða þetta“

Um helgina birtist á vef Hafrannsóknastofnunar grein þar sem veiðiráðgjöf hrognkelsa er útskýrð og jafnframt ítrekað að ekki sé talin ástæða til að breyta ráðgjöfinni á yfirstandandi vertíð. Einnig skrifaði Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra, grein í Morgunblaðið þar sem hann segist fylgja vísindalegri ráðfgjöf Hafrannsóknastofnunar. Lilja segir að öll þau gögn sem atvinnuveganefnd hafi tekið saman hafi verið send sjávarútvegsráðherra í dag og afrit á Hafrannsóknastofnun. „Þessi gögn voru ekki komin til þeirra þegar að viðkomandi skrifaði þessa grein eða fjölluðu um það á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar. Það er bara full tilefni til að skoða þetta,“ segir hún.