Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hafa verulegar áhyggjur af breytingum á útlendingalögum

11.05.2020 - 19:45
Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Rauði krossinn hefur verulegar áhyggjur af breytingum á lögum um útlendinga, sem dómsmálaráðherra hefur mælt fyrir á Alþingi. Þær séu mikil afturför og í raun lögfesting á endursendingum barna til Grikklands. Ráðherrann segir að með frumvarpinu verði málsmeðferðartími styttur sem komi sér vel fyrir þá sem þurfi virkilega á vernd að halda.

Helstu áhyggjuefni Rauða krossins varðar fólk sem hefur fengið vernd í öðrum ríkjum, svo sem Grikklandi eða Ungverjalandi. Til þessa hefur stærsti hluti umsækjenda um alþjóðlega vernd sem hingað koma verið sendir aftur til þess ríkis sem þeir komu frá á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. 

„En einstaka einstaklingar sem hafa verið í mjög sérstökum aðstæðum, þar erum við að tala um langveik börn, fólk með geðraskanir og fylgdarlaus börn líka, hafa fengið efnismeðferð hér á landi og þar af leiðandi vernd, en með þessu frumvarpi er verið að taka út heimild útlendingastofnunar og kærunefndar til þess að skoða þessi atriði,“ segir Guðríður Lára Þrastardóttir, lögfræðingur hjá Rauða krossinum. 

Lögin mikil afturför

Hún segir að á síðasta ári hafi átta fullorðnir og um sex börn fengið hér alþjóðlega vernd, samkvæmt þeim ákvæðum sem nú stendur til að taka út. Annað sem Rauði krossinn hafi gert athugasemdir við í frumvarpinu sé stytting tímafresta sem myndi þýða að fólk sem hefur verið hér á landi lengur í tólf mánuði fengi ekki efnismeðferð og vernd líkt og nú er í lögum. Að sögn Guðríðar eru lögin mikil afturför og andstætt því sem ráðherra hafi talað um hvað varðar endursendingar barna til Grikklands.

„Það kom fram í máli ráðherra hér í lok febrúar að til stæði að endurskoða það. Þetta er í rauninni lögfesting á endursendingum til að mynda barna til Grikklands. Þetta þýðir í rauninni það að ef að kæmi hér barnafjölskylda með ungt barn með heilaæxli til dæmis þá væri hreinlega ekki heimild í lögum til að veita þessari fjölskyldu efnismeðferð hér á landi, “ segir Guðríður. 

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra.

Markmið frumvarpsins að stytta málsmeðferðartíma

Frumvarpið var fyrst kynnt í tíð Sigríðar Á. Andersen en hlaut ekki brautargengi. Nú hefur Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, lagt það fram að nýju í nokkuð óbreyttri mynd. Stjórnarandstaðan hefur mótmælt frumvarpinu og sagt að með því sé verið að lögfesta endursendingar barna til Grikklands. Áslaug Arna segist ekki geta tekið undir það. Með frumvarpinu sé reynt að minnka málsmeðferðartíma þar sem flest þessara mála fá neikvæða niðurstöðu en taki of langan tíma í kerfinu. Það lengi þar af leiðandi málsmeðferðartíma þeirra einstaklinga sem þurfi virkilega á vernd að halda. 

Stjórnarandstaðan hefur jafnframt bent á að með frumvarpinu sé tekin út heimild til að skoða ákveðin mál sérstaklega. Áslaug segir við því að alltaf verði veitt viðtal og fólki gert kleift að framvísa gögnum „Og það má aldrei endursenda ef það er brot á 43. grein útlendingalaga sem byggist á þriðju grein mannréttindasáttmála Evrópu. Við lítum auðvitað líka til annarra landa og þarna  verðum við að skoða kerfið í heild og hvernig við getum bætt stjórnsýsluna sem er einfaldlega orðin of þung og mál taka alltof langan tíma.“ Þá sé verið að vinna skýrslu um málefni barna á flótta og verið að skoða breytingar á móttöku fylgdarlausra barna og ungmenna sem ekki séu með vernd neins staðar. 

Hún segir að ástæðu þess að verið sé að fjalla um málið á þinginu núna að það hafi verið tilbúið og þurft þinglega meðferð og tíma. Þegar önnur Covid-mál séu ekki að bíða sé sjálfsagt að taka fyrir mál ótengd faraldrinum. Fyrsta umræða málsins heldur áfram á Alþingi í kvöld. 

Leiðrétting: Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar stóð að frumvarpið hafi fyrst verið lagt fram í tíð Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra. Rétt er að Sigríður Á. Andersen kynnti frumvarpið í byrjun síðasta árs og birti það í samráðsgátt stjórnvalda. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir sem tók við embætti dómsmálaráðherra tímabundið eftir að Sigríður Á. Andersen sagði af sér í mars í fyrra - var sú sem lagði frumvarpið fram á Alþingi.