Helstu áhyggjuefni Rauða krossins varðar fólk sem hefur fengið vernd í öðrum ríkjum, svo sem Grikklandi eða Ungverjalandi. Til þessa hefur stærsti hluti umsækjenda um alþjóðlega vernd sem hingað koma verið sendir aftur til þess ríkis sem þeir komu frá á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.
„En einstaka einstaklingar sem hafa verið í mjög sérstökum aðstæðum, þar erum við að tala um langveik börn, fólk með geðraskanir og fylgdarlaus börn líka, hafa fengið efnismeðferð hér á landi og þar af leiðandi vernd, en með þessu frumvarpi er verið að taka út heimild útlendingastofnunar og kærunefndar til þess að skoða þessi atriði,“ segir Guðríður Lára Þrastardóttir, lögfræðingur hjá Rauða krossinum.
Lögin mikil afturför
Hún segir að á síðasta ári hafi átta fullorðnir og um sex börn fengið hér alþjóðlega vernd, samkvæmt þeim ákvæðum sem nú stendur til að taka út. Annað sem Rauði krossinn hafi gert athugasemdir við í frumvarpinu sé stytting tímafresta sem myndi þýða að fólk sem hefur verið hér á landi lengur í tólf mánuði fengi ekki efnismeðferð og vernd líkt og nú er í lögum. Að sögn Guðríðar eru lögin mikil afturför og andstætt því sem ráðherra hafi talað um hvað varðar endursendingar barna til Grikklands.
„Það kom fram í máli ráðherra hér í lok febrúar að til stæði að endurskoða það. Þetta er í rauninni lögfesting á endursendingum til að mynda barna til Grikklands. Þetta þýðir í rauninni það að ef að kæmi hér barnafjölskylda með ungt barn með heilaæxli til dæmis þá væri hreinlega ekki heimild í lögum til að veita þessari fjölskyldu efnismeðferð hér á landi, “ segir Guðríður.