Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fyrirtæki vilja endurgreiða fyrir hlutabótaleið

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sex fyrirtæki hafa haft samband við Vinnumálastofnun í því skyni að endurgreiða þá fjármuni sem þau fengu út úr hlutabótaleið ríkisstjórnarinnar.

Með hlutabótaleiðinni gátu fyrirtæki minnkað starfshlutall fólks í allt að 25 prósent og það fengið 75 prósenta atvinnleysisbætur á móti. Átti þetta að nýtast fyrirtækjum sem lentu í rekstrarvanda vegna COVID-19-faraldursins. Greint hefur verið frá því að stór fyrirtæki sem ekki eiga í rekstrarvanda hafi nýtt sér þessa leið með tugmilljóna króna kostnaði fyrir ríkissjóð.

Stjórnmálamenn brugðust illa við þegar greint var frá því að stöndug fyrirtæki hefðu nýtt sér hlutabótaleið stjórnvalda. Þeir kölluðu eftir því að listi yrði birtur yfir þau fyrirtæki sem nýttu sér úrræðið. Það mun vera til skoðunar hjá Vinnumálastofnun en ræðst af persónuverndarsjónarmiðum og fæst úr því skorið á næstu dögum hvort og þá í hvaða formi listinn verður birtur.

Meirihluti í kauphöllinni sat hjá

Fréttastofa sendi fyrirspurn til allra félaga sem skráð eru í kauphöllina um hvort þau hefðu nýtt sér hlutabótaleiðina. Ellefu fyrirtæki svöruðu að það hefðu þau ekki gert. Þetta eru Brim, Arion banki, Marel, Eik fasteignafélag, Eimskip, Reitir fasteignafélag, Síminn, Sjóvá, TM, VÍS, Heimavellir og Kvika banki.

Upplýst hefur verið að Hagar, Festi og Skeljungur hafi nýtt sér þessa leið. Hagar og Skeljungur hafa sagst ætla að endurgreiða þá upphæð sem féll á ríkið og Festi ætlar að hætta að nýta sér leiðina. Icelandair Group og Iceland Seafood hafa ekki svarað fyrirspurn fréttastofu en fyrrnefnda félagið hafði tilkynnt að 92 prósent starfsmanna hafi verið sett á hlutabótaleiðina.

Origo hættir við

Origo, sem skráð er í Kauphöll Íslands, staðfesti við Stundina  fyrir helgi að yfir 50 manns hafi farið á hlutabótaleið. Sú ráðstöfun hefur nú verið dregin tilbaka. Í svari Origo til fréttastofu segir að ákveðið hafi verið að nýta hlutabótaleiðina á þeim sviðum sem urðu fyrir mestum áhrifum vegna samdráttar í ferðaþjónustu. Markmiðið hafi verið að forðast uppsagnir. En með vísan til umræðunnar í samfélaginu hafi fyrirtækið ákveðið að nýta ekki hlutabótaleiðina og gildir sú ákvörðun afturvirkt.  

90 hjá Sýn og fimm hjá Reginn

Í svörum frá Reginn fasteignafélagi segir að tvö af dótturfélögum þess, Kvikmyndahöllin ehf. og Knatthöllin ehf.,  hafi nýtt sér hlutabótaleiðina í apríl. Þetta eru félög sem sjá um starfsemi innan Egilshallar enda hafi þau orðið fyrir verulegum tekjusamdrætti vegna samkomubannsins og hefði komið til uppsagnar ef ekki hefði verið fyrir úrræðið. Fimm starfsmenn fengu hlutabætur í apríl og kostnaður vegna þessa var 2,4 milljónir króna. Ekki hefur komið til tals að endurgreiða upphæðina en slíkt þyrfti að gera í samráði við leigutaka félaganna sem hafa verið tekjulausir síðan í mars, segir í svarinu.

Sýn nýtti einnig hlutabótaleiðina fyrir þá hluta starfseminnar sem lá niðri vegna samkomubanns. Það náði til 90 starfsmanna og var meðalskerðing á starfshlutfalli um 30 prósent. Í svari Sýnar segir að félagið hafi verið í taprekstri og því ekki greitt sér arð né keypt eigin bréf.

Sex fyrirtæki óskað eftir að endurgreiða

Undanfarna daga hafa fyrirtæki tekið upp hjá sjálfum sér að endurgreiða þá fjármuni sem fengnir hafa verið út á hlutabótaleiðina. Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, sagði við fréttastofu nú síðdegis að sex fyrirtæki hefðu sett sig í samband við stofnunina vegna endurgreiðslna.

Kaupfélag Skagfirðinga sendi frá sér yfirlýsingu í dag þess efnis að dótturfélag þess, kjötvinnslan Esja Gæðafæði, ætli að endurgreiða 17 milljóna króna stuðning sem hún fékk út úr hlutabótaleiðinni.

Dótturfélög Brims endurgreiða

Eins og áður sagði var Brim ekki á meðal þeirra fyrirtækja í Kauphöll sem nýttu sér úrræðið en það gerðu tvö dótturfélög þess, Vignir G. Jónsson á Akranesi og Norðanfiskur hf. Í svari frá Brimi segir að síðarnefnda fyrirtækið hafi nýtt úrræðið í upphafi þess og gert í um það bil mánuð. Það hafi hins vegar hætt því og hafa verið gerðar ráðstafanir til endurgreiðslu. Norðanfiskur hf. er í söluferli og hefur Brim ekki hlutast til um rekstur þess á meðan það ferli stendur yfir. Norðanfiskur nýtti úrræðið í apríl og ætlar Brim að sjá til þess að ríkissjóðir beri ekki kostnað af nýtingu úrræðisins á þeim tíma sem Brim er eigandi þess.