Flugfreyjufélagið fundar um tilboð frá Icelandair

11.05.2020 - 16:18
Mynd með færslu
Library picture of other Icelandair jets. Mynd:
Icelandair sendi í gær tilboð til Flugfreyjufélags Íslands sem fyrirtækið leggur til að verði borið milliliðalaust undir alla félagsmenn í kosningu.

Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, staðfestir í samtali við fréttastofu að Icelandair hafi sent þeim tilboð í gær. Hún vill þó ekki gefa neitt upp um innihald þess þar sem ekki sé búið að kynna það fyrir félagsmönnum. Guðlaug segir þó að í tilboði flugfélagsins felist launaskerðing og skerðing á réttindum flugfreyja til langs tíma. 

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur flugfreyjufélagið fundað stíft um málið í dag, meðal annars með lögfræðingi ASÍ. Tilboð Icelandair verður sent á flugfreyjur í Flugfreyjufélagi Íslands á næstunni, líklega í kvöld, og í framhaldinu tekin afstaða til þess.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sagði í bréfi til starfsmanna um helgina að tryggja verði langtímasamninga við flugstéttir félagsins fyrir 22. maí, en þá hefur verið boðaður hluthafafundur.

Guðlaug sagði í fréttum RÚV í gærkvöldi að flugfreyjum hefði brugðið við bréf forstjórans og að þær ætli ekki að skerða kjör sín með langtímasamningum. Telja flugfreyjur að launalækkanir og varanleg skerðing á réttindum sé óviðunandi. Flugmenn Icelandair hafa aftur á móti boðist til að lækka laun sín og gefa eftir ýmis réttindi til að bæta samkeppnisstöðu flugfélagsins. 

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi