Fleiri handtökur eftir misheppnaða innrás í Venesúela

11.05.2020 - 05:50
epa08406213 Handout photo made available by the Miraflores press of the Venezuelan President Nicolas Maduro showing the passports of the two Americans detained in Venezuela during a press conference held by ministers and the military high command, in which ambassadors participate by videoconference and journalists, in Caracas, Venezuela, 06 May 2020. Luke Denman, one of two Americans detained in Venezuela over a thwarted maritime attack, said Wednesday that he had orders to take control of the airport near Caracas to send President Nicolas Maduro to the United States.  EPA-EFE/Miraflores press HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - Miraflores press
Ellefu voru handteknir í Venesúela í gær, grunaðir um að tengjast misheppnaðri innrás í landið og samsæri um að koma forseta landsins frá völdum. Alls hafa 45 verið handteknir.

Að sögn yfirvalda í Venesúela komu nokkrir vopnaðir menn á bátum að landi fyrr í mánuðinum. Átök urðu á milli öryggissveita og skipverjanna, sem endaði með því að átta innrásarmenn féllu. Tveir Bandaríkjamenn voru handteknir í aðgerð yfirvalda. Þeir hafa báðir verið ákærðir fyrir hryðjuverk og samsæri um að koma Nicolas Maduro forseta frá völdum.

Líkt við innrásina á Svínaflóa

Maduro hefur sjálfur líkt aðgerðinni við misheppnaða innrás Bandaríkjanna á Svínaflóa árið 1961. Samkvæmt játningum bandarísku mannanna ætluðu þeir að ryðjast inn í forsetahöllina, og ná Maduro þaðan út með öllum tiltækum ráðum. Þaðan átti að fara með hann á herflugvöll í höfuðborginni Caracas, og fljúga honum til Bandaríkjanna. Maduro sakar Bandaríkin, Kólumbíu og stjórnarandstæðinginn Juan Guaido um að eiga þátt í samsærinu. Allir neita sök. 

Alls hafa 45 verið handteknir vegna málsins. Maduro sagði í sjónvarpsávarpi í gær að yfirvöld hafi unnið nákvæma rannsókn á því hverjir hafi átt hlut að máli, og þeim verði öllum náð á endanum.

Bæði pólitísk og efnahagsleg krísa hefur verið árum saman í Venesúela. Ríkið var áður eitt það allra auðugasta í Suður-Ameríku, enda auðugt af olíulindum. Nú ríkir þar djúp efnahagslægð, sem ekki sér fyrir endann á. Mitt í fjárkröggunum hefur Maduro hert tök sín á stjórn landsins. Hann setti á laggirnar nýtt stjórnlagaþing, sem hann ákvað að tæki við löggjafarvaldinu af ríkisþinginu. Fjölskylda, vinir og vandamenn Maduros skipa stjórnlagaþingið. Á ríkisþinginu er stjórnarandstaðan í meirihluta.