Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Færri óttast að smitast af COVID-19

Mynd með færslu
 Mynd: Landspítali/Þorkell Þorkelsso
Þeim hefur fækkað sem óttast að smitast af COVID-19, samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallups, og er meðaltalið nú það sama og þegar mælingar hófust, um mánaðamótin janúar og febrúar, þegar innan við þriðjungur landsmanna óttaðist að veiran bærist til landsins. Fleiri hafa áhyggjur af efnahagslegum afleiðingum faraldursins nú en þegar hann var að byrja að breiðast út.

20. til 26. mars óttuðust 29,9 prósent mjög eða frekar mikið að smitast af COVID-19. Hlutfallið hélst í kringum 30 prósent til 17. apríl. Frá 30. apríl til 10. maí óttuðust tæp 19 prósent að smitast af sjúkdómnum, samkvæmt Þjóðarpúlsinum. 

Fleiri virðast hafa áhyggjur af efnahagslegum afleiðingum faraldursins nú en áður. Samkvæmt Þjóðarpúlsinum þá höfðu 80,6 prósent mjög eða frekar miklar áhyggjur af efnahagslegum afleiðingum á tímabilinu 30. apríl til 10. maí. 13. til 16. mars var hlutfallið 69,3 prósent. 

Síðan faraldurinn náði hámarki hefur þeim einnig fækkað sem óttast heilsufarsleg áhrif sjúkdómsins á Íslandi. 20. til 26. mars var það tímabil þegar flestir höfðu mjög miklar eða frekar miklar áhyggjur af heilsufarslegum afleiðingum faraldursins, eða 59,1 prósent. Frá 30. apríl til 10. maí voru hins vegar 34,7 prósent svarenda með mjög miklar eða frekar miklar áhyggjur af því.

Þeim hefur fækkað sem viðhafa breyttar venjur vegna COVID-19, sérstaklega þegar kemur að því að forðast handabönd, fjölfarna staði eða fjölsótta viðburði, forðast að eiga óþarfa samskipti við annað fólk, kaupa inn í meira magni til að þurfa sjaldnar að fara í búð og að vinna heiman frá sér. 

Könnunin var gerð 30. apríl til 10. maí á netinu. Úrtakið var 1.529 manns, 18 ára og eldri, valdir af handahófi úr Viðhorfahópi gallup. Þátttökuhlutfall var 56,5 prósent. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir