Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Deila um hvort auðir seðlar teljist með

11.05.2020 - 17:23
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ágreiningur er um það hvort kjarasamningur Félags íslenskra nátttúrufræðinga við ríkið hafi verið samþykktur eða felldur í atkvæðagreiðslu í apríl. Deilt er um hvort telja skuli auða seðla með eða ekki. Skorið verður úr um málið fyrir Félagsdómi.

Kjarasamningur var undirritaður milli Félags íslenskra náttúrufræðinga og ríkisins 2. apríl. Þegar rafrænni atkvæðagreiðslu lauk rúmlega hálfum mánuði síðar höfðu 564 greitt atkvæði eða rúmlega 68 prósent félagsmanna. 

Ágreiningurinn snýst um það hvort telja skuli með auða seðla eða ekki. Ríkið segir viðtekna venju að telja þá með en félagið telur aðeins þá með sem tóku afstöðu til samningsins. Ríkið telur samninginn hafa verið samþykktan en félagið að hann hafi verið felldur. 

Maríanna H. Helgadóttir, formaður félagsins, segir að rafræn atkvæðagreiðsla sé sambærileg á við póstatkvæðagreiðslu þar sem þessi háttur sé hafður á. Ríkið vísi í 32 ára gamlan dóm í Félagsdómi máli sínu til stuðnings sem félagið telur ekki eiga við, þar eð hann fjalli ekki um talningu atkvæða um kjarasamning heldur um verkfallsaðgerðir. 

Sverrir Jónsson, formaður samninganefndar ríkisins, segir að samningurinn teljist samþykktur því telja eigi auða og ógilda atkvæðaseðla með. Afstaða sé fólgin í auðum atkvæðum rétt eins og hinum.  Þetta eigi einnig við um póstatkvæðagreiðslu. 

„Og samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur þá telst samningurinn samþykktur.“

Ágreiningurinn er nú á leið fyrir Félagsdóm og óska bæði eftir flýtimeðferð. 

Maríanna telur að niðurstaðan kunni að verða fordæmisgefandi. „Hann verður fordæmisgefandi vegna þess að þá er þetta fyrsti dómur félagsdóms sem varðar talningu atkvæða við að greiða atkvæði um kjarasamning. Hinn dómurinn sem er 32 ára gamall á við talningu í atkvæðagreiðslu  um beitingu verkfallsvopnsins.“

Sverrir segir að ekki hafi áður verið tekið til þessa fyrir félagsdómi og gerir ráð fyrir að niðurstaðan falli ríkinu í hag. „Það eru önnur stéttarfélög og önnur bandalög sem hafa litið málið sömu augum og við og við vonumst til þess að félagsdómur staðfesti það.“
 

 

 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV