Býst við að jöklar á Íslandi haldi enn áfram að rýrna

11.05.2020 - 09:36
Mynd: Veðurstofan / Veðurstofan
Íslenskir jöklar hafa nær aldrei minnkað jafn mikið og þeir gerðu á síðasta ári. Flatarmál þeirra hefur dregist saman um tæplega 800 ferkílómetra síðustu 20 ár. Jarðeðlisfræðingur segir niðurstöður síðustu ára koma nokkuð á óvart.

Síðustu ár hefur heildarflatarmál jöklanna að meðaltali minnkað um 40 ferkílómetra á ári. Þetta kemur fram í gögnum Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands, Landsvirkjunar og Veðurstofu Íslands. Í fyrra hopuðu jökulsporðar víða um tugi metra. Hraðast hörfar Breiðamerkurjökull þar sem kelfir af honum í Jökulsárlón, milli 150 og 400 metra í fyrra.

Þegar jöklarnir minnka léttist fargið, sem veldur hröðu landrisi. Við Höfn í Hornafirði rís land nú um 10 til 15 millimetra á ári og hefur hert mikið á risinu undanfarna tvo áratugi vegna rýrnunar Hoffellsjökuls.  Lón hefur myndast við jökulsporðinn og hefur það stækkað hratt frá aldamótunum 2000. 

Langjökull, Hofsjökull og Vatnajökull hafa tapað um 250 rúmkílómetrum af ís frá 1995. Það eru um sjö prósent af heildarrúmmáli þeirra.

Mynd: RÚV / RÚV

Þorsteinn Þorsteinsson, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að einhver frávik séu í rýrnun jöklanna á hverju ári.

„Það má segja að jöklarnir hörfi nokkuð stöðugt á hverju ári, en hitabreytingar eru nokkuð sveiflukenndar frá ári til árs. Það var mikið í gangi 1995 og fram yfir 2010, en svo hefur verið svolítið breytilegt milli ára síðan,“ segir Þorsteinn.

Starfsmenn á Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands fóru í orferð á Hofsjökul, Langjökul og Vatnajökul og mældu vetrarákomuna á dögunum, það er að segja hversu mikið hefur snjóað á jöklanna. Þorsteinn segir að það komi á óvart að snjórinn sé að minnka.

„Það er auðvitað drjúgur snjór, en ekki alveg jafn mikið og verið hefur síðustu árin. Þetta verður sama sagan áfram og ef sumarið verður áþekkt því sem verið hefur síðustu tíu til fimmtán árin þá býst ég við því að jöklar rýrni enn á ný,“ segir Þorsteinn Þorsteinsson, jarðeðlisfræðingur.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi