Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

13,6 metra langan búrhval rak á land í Kálfshamarsvík

11.05.2020 - 17:59
Mynd með færslu
Bjarni Jónsson, forstöðumaður Náttúrustofu Norðurlands vestra, skoðar búrhvalinn í Kálfhamarsvík. Mynd: Náttúrustofa Norðvesturlands
Búrhvalur, sem hafði rekið á land, fannst á fimmtudag í Kálfshamarsvík á Skaga á Norðurlandi vestra. Þetta er annar búrhvalurinn sem fannst í þessum landshluta á árinu og segir Bjarni Jónsson, forstöðumaður Náttúrustofu Norðvesturlands, að það sé athyglisvert að tvö stórhveli reki þar á land á stuttum tíma og að það þurfi að rannsaka.

Búrhvalurinn í Kálfshamarsvík er um 13,6 metra langur tarfur. Þegar hann fannst virtist vera rúm vika síðan hann drapst. Í mars fannst búrhvalstarfur ekki langt þarna frá, eða við ósa árinnar Blöndu. Bjarni segir að líklega séu þetta ungir tarfar og að ekki sé ljóst hvað hafi orðið þeim að aldurtila. „Ég held að það þurfi að velta þessu betur fyrir sér. Það er meira af smáhveli sem hefur verið að reka, óvenju mikið núna síðustu misserin og ekki síst hnýðingar, hér á þessu svæði. En þarna eru komnir búrhvalir og þetta er eitthvað sem að þarfnast frekari skýringa, eitt er að það sé meira af þessu dýrum heldur en var en það getur margt fleira komið til líka,“ segir Bjarni.  

Til stóð að sigla með búrhvalinn við ósa Blöndu í mars aftur á sjó út en brimið hafði hrifið hann með sér áður en til þess kom. „En þessi í Kálfshamarsvíkinni það er nánast ómögulegt að ná honum upp eða grafa hann á þessum stað. Þetta er mjög vinsæll áfangastaður útivistarfólks og aðgrunnt nokkuð þannig að hann er ekki að fara að fara að sjálfu sér og ekki annað að gera en að draga hann út og sökkva honum.“ 

Búrhvalstarfar geta orðið 15 til 20 metrar að lengd og 45 til 57 tonn að þyngd. Kýrnar eru aðeins minni, að sögn Bjarna, og halda sig síður við strendur landsins, en tarfarnir.

Mynd með færslu
dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir