Tómir herbátar haldlagðir í Venesúela

10.05.2020 - 06:11
epa08406212 Handout photo made available by the Miraflores press of the Venezuelan President Nicolas Maduro during a press conference held by ministers and the military high command, in which ambassadors participate by videoconference and journalists, in Caracas, Venezuela, 06 May 2020. Luke Denman, one of two Americans detained in Venezuela over a thwarted maritime attack, said Wednesday that he had orders to take control of the airport near Caracas to send President Nicolas Maduro to the United States.  EPA-EFE/Miraflores press HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - Miraflores press
Herinn í Venesúela segist hafa lagt hald á þrjá yfirgefna kólumbíska herbáta. Vélbyssur og skot voru um borð í bátunum, en engir skipverjar. Bátarnir fundust í eftirlitsferð um ána Orinoco. Ferðin tilheyrði umfangsmikilli aðgerð sem á að tryggja frelsi og sjálfstæði Venesúela, hefur Al Jazeera fréttastofan eftir yfirlýsingu frá varnarmálaráðuneyti Venesúela.

Stjórnvöld í Venesúela telja Kólumbíu eiga þátt í misheppnaðri tilraun málaliða sem ætluðu að ræna forsetanum Nicolas Maduro. Tveir Bandaríkjamenn voru handteknir í vikunni, og birt myndbönd af þeim þar sem þeir játuðu að hafa ætlað að ræna forsetanum. Mennirnir eru báðir fyrrverandi hermenn, og hafa verið ákærðir fyrir hryðjuverk og samsæri. Stjórn Maduros sakar bæði Bandaríkjastjórn og stjórn nágrannaríkisins Kólumbíu um að eiga þátt í samsærinu gegn Maduro. 

Ríkissaksóknarinn Tarek William Saab segir yfirvöld í Venesúela sækjast eftir alþjóðlegri handtökuskipun gegn Jordan Goudreau. Sá er einnig fyrrverandi hermaður í Bandaríkjaher, og stjórnar leyniþjónustufyrirtæki í Flórída. Goudreau hefur greint frá því í fjölmiðlum vestanhafs að hann hafi skipulagt aðgerðina í Venesúela. 

Stjórnarandstöðuleiðtoginn Juan Guaido er einnig sakaður um að eiga þátt í aðgerðinni. Saab sakar Guaido um að hafa skrifað undir 212 milljón dollara samning við bandaríska málaliða. Samningurinn var svo greiddur með peningum sem bandarísk yfirvöld lögðu hald á úr ríkisolíufyrirtæki Venesúela. Guaido neitar alfarið sök.