Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sigríði gert að skoða samninga Haraldar við starfsmenn

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, nýr ríkislögreglustjóri, á að fara yfir og mögulega endurskoða þær launabreytingar sem Haraldur Johannessen, fyrrverandi ríkislögreglustjóri, gerði við tíu yfir- og aðstoðaryfirlögregluþjóna embættisins síðasta haust. Þetta er samkvæmt tilmælum dómsmálaráðherra og byggt á umsögn Kjara- og mannauðssýslu ríkisins um samningana. Lögreglustjórafélagið mótmælti breytingunum á sínum tíma og óskaði eftir aðkomu ráðuneytisins.

Harðlega gagnrýnt af Lögreglustjórafélaginu

Dómsmálaráðuneytið sendi bréf til ríkislögreglustjóra og allra lögreglustjóra 4. maí síðastliðinn, fyrir hönd Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur ráðherra, um launasamkomulag þáverandi ríkislögreglustjóra við alla yfir- og aðstoðaryfirlögregluþjóna embættisins í fyrra.

Samkomulagið var harðlega gagnrýnt þegar frá því var greint í október, en það snýr meðal annars að auknum lífeyrisréttindum til tíu yfirmanna ríkislögreglustjóraembættisins. Formaður Lögreglustjórafélags Íslands gerði við þetta alvarlegar athugasemdir í bréf til dómsmálaráðuneytisins á sínum tíma og benti á yfir- og aðstoðaryfirlögregluþjónarnir verði þannig með hærri laun en 7 af 9 lögreglustjórum landsins. Þeir fengu 50 yfirvinnustundir færð inn í föst mánaðarlaun, og með því aukin lífeyrisréttindi. Haraldur sagði þá að frumkvæðið að samningunum hafi komið frá Félagi yfirlögregluþjóna, á grundvelli stofnanasamnings embættisins við Landssamband lögreglumanna einu og hálfu ári áður. 

Mátti gera breytingar, en kannski ekki þessar breytingar

Í nýjasta bréfi ráðuneytisins segir að það sé óumdeilt að ríkislögreglustjóri hafi haft heimild til að gera breytingarnar, en þær verði að vera í samræmi við markmið stofnanasamningsins sem þá var í gildi. Ráðuneytið óskaði eftir umsögn Kjara- og mannauðssýslu ríkisins og hún segir samkomulögin verða að fela í sér að þeir sem fengu yfirvinnutímana færða inn í föst laun, verði þar með að vinna ákveðna yfirvinnutíma til að geta uppfyllt starfslýsingu.

Þá segir jafnframt að ef forstöðumaður gerir breytingar á launasamsetningu starfsmanns, sem hefur áður fengið greidda reglubundna yfirvinnu, megi gera ráð fyrir að þá hafi orðið veruleg breyting á starfslýsingu starfsmannsins og þar með stofnanasamningi. Í því ljósi þurfi að skoða hvort launabreytingarnar séu í samræmi við breytingar á starfi fólksins.

Þarf að fara yfir alla samningana og mögulega breyta þeim

Ráðuneytið hefur því lagt fyrir Sigríði Björk Guðjónsdóttur, nýjan ríkislögreglustjóra, að skoða þessar breytingar sem forveri hennar gerði og, eftir atvikum, endurskoða samkomulagið. Ráðuneytið leggur áherslu á, við alla lögreglustjóra, fái þeir sambærileg samninga, þurfi þeir að standast reglur. Sigríður Björk sagði í október, þegar hún var lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, að svona samningur hafi ekki staðið til boða í hennar stofnun.