Segjast þurfa að ræða ákveðna hluti með baklandinu

10.05.2020 - 15:16
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Samningafundi Icelandair og Flugfreyjufélags Íslands lauk rétt upp úr klukkan þrjú í dag. Þá var um það bil klukkustund liðin frá því að samningafundur hófst.

Sylvía Kristín Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Icelandair, sagði að fundi loknum að ræða þyrfti ákveðna hluti með baklandi samninganefndar áður en lengra yrði haldið. 

Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, sagði að fundi loknum að flugfreyjur myndu ekki sætta sig við launalækkun og kjaraskerðingu til frambúðar. Þær væru einhuga um það.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, birti bréf til starfsmanna flugfélagsins á innri vef fyrirtækisins í gærkvöld. Hann sagði að ganga þyrfti frá langtímasamningum við flugstéttir félagsins fyrir hluthafafund 22. maí þar sem framtíð fyrirtækisins getur ráðist. Bogi sagði að lækka þyrfti þann kostnað sem fyrirtækið hefði mögulega á að hafa áhrif á og átti þá sérstaklega við launakostnað. Bogi sagðist líka upplifa stöðuna þannig að það væri helst starfsfólk félagsins sem hindraði björgunarstarf við að halda Icelandair gagnandi. 

Formaður Flugfreyjufélags Íslands sagði í fréttum RÚV í hádeginu að flugfreyjum hefði brugðið við orðsendingu forstjórans. Hún sagði að í viðræðum flugfélagsins og flugfreyja væri farið fram á launalækkun flugfreyja og skerðingu á réttindum til frambúðar. Hún sagði ekki hægt að sætta sig við það en að flugfreyjur væru reiðubúnar að gera tilslakanir í ákveðinn tíma til að hjálpa félaginu yfir erfiðasta hjallann.

Fréttin hefur verið uppfærð með viðbrögðum formanns Flugfreyjufélags Íslands.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi