Reyndu að neyða ungan mann til að taka fé úr hraðbanka

10.05.2020 - 07:59
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Tveir menn réðust á ungan mann í miðborg Reykjavíkur í nótt. Þeir tóku veskið hans af honum og reyndu að neyða hann til að taka peninga út úr hraðbanka. Maðurinn kallaði til lögreglu og er málið til rannsóknar. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglunnar, eftir nóttina.

Í dagbókinni kemur líka fram að karlmaður í annarlegu ástandi var handtekinn í miðborginni um klukkan hálftvö í nótt grunaður um kynferðislega áreitni gagnvart konu. Hann gisti fangageymslur í nótt. Þá voru tveir ungir menn handteknir í verslun í miðborginni um klukkan hálfsjö í gærkvöldi. Annar mannana var grunaður um að hafa stolið úr versluninni. Þegar afgreiðslumaður hafði afskipti af manninum réðst félagi hans á afgreiðslumanninn. 

Laust eftir klukkan sex í gærkvöldi fékk lögreglan tilkynningu um öskur og læti frá heimili í Árbænum. Þegar lögreglumenn gáðu að reyndist um heimilisofbeldismál að ræða og segir í dagbók að málið hafi verið „afgreitt skv. verklagi lögreglu.“

Laust fyrir klukkan sjö var svo tilkynnt um blygðunarsemisbrot í Grafarvogi. Ekki er tekið fram umhverskonar háttsemi var að ræða en hinn grunaði var handtekinn og færður á lögreglustöð til skýrslutöku.

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV