Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Flugmenn reiðubúnir að skerða eigin kjör

10.05.2020 - 17:51
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Flugmenn Icelandair hafa boðist til að lækka laun sín og gefa eftir ýmis réttindi til að bæta samkeppnisstöðu flugfélagsins. Þeir segja að tilboð sitt um langtímasamning feli í sér 25 prósenta hagræðingu og kostnaðarlækkun fyrir flugfélagið.

Bréf Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair, til starfsmanna fyrirtækisins sem fréttastofa sagði frá í gær, varpar ljósi á viðkvæma stöðu þess og þrýsting á starfsmenn að taka á sig launalækkun til að tryggja framtíð félagsins. Forstjórinn taldi helstu hindrunina í björgunaraðgerðum vera að finna meðal starfsmanna sjálfra. Jón Þór Þorvaldsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna, segir óheppilegt að bréf forstjóra hafi farið í fjölmiðla. Hann segir að samskipti FÍA og Icelandair hafi verið góð.

Jón Þór segir að flugmenn vilji leggja sitt af mörkum til að tryggja samkeppnishæfni og stöðugleika fyrirtækisins. „Við eigum mikið undir, sem og landið allt og hagkerfið. Við höfum nú þegar lagt fram boð, sem er rúmlega 25 prósent, sem er til hagræðingar og kostnaðarlækkunar fyrir félagið.“ Aðspurður hvort það þýði 25 prósenta launalækkun svarar hann: „Þetta er hagræðing og kostnaðarlækkun. Hluti af því er launalækkun. Svo er lengri vinnutími, við erum tilbúnir að gefa eftir orlof, helgarfrí, svona lífsgæði sem við teljum að við þurfum að koma til móts við okkar félag.“

Jón Þór segir að hægt sé að ganga frá slíkum langtímasamningi fyrir hluthafafund Icelandair 22. maí. Nú séu viðsemjendur þeirra hjá fyrirtækinu að fara yfir það tilboð. 

Forstjóri Icelandair gerði samningaviðræður við flugmenn og flugfreyjur að umræðuefni í bréfi til starfsmanna og sagði að þær mættu vera á betri stað. „Það væri náttúrulega betra ef það væri búið að semja. Tíminn skiptir máli. Þannig að það er það sem ég les út úr því.“

Flugfreyjur og samninganefnd Icelandair hittust á samningafundi í dag. Honum var slitið eftir klukkustund án niðurstöðu.