Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sökuð um að smyrja landsbyggðina með COVID-19

Mynd: RÚV / RÚV

Sökuð um að smyrja landsbyggðina með COVID-19

09.05.2020 - 11:50

Höfundar

Margrét Gauja Magnúsdóttir og Jón Ársæll Þórðarson kalla sig COVID-systkini enda eiga þau það sameiginlegt að vera á meðal þeirra sem veiktust illa í faraldrinum. Þau segja að veikindunum fylgi skömm og mikilvægt að þeir sem smitist af sjúkdómnum átti sig á því að sökin er ekki þeirra.

Leiðsögumaðurinn, stjórnmálakonan og barnastjarnan Margrét Gauja Magnúsdóttir og sjónvarpsstjarnan Jón Ársæll Þórðarson eru bæði á batavegi eftir margra vikna einangrun og veikindi. Þau komu í Mannlega þáttinn á Rás 1 og sögðu frá reynslunni, veikindunum og bataferlinu, þakklætinu og skömminni.

Í fósturstellingu á klósettinu á Djúpavogi

Margrét Gauja var í hringferð með hóp erlendra ferðamanna þegar hún fann fyrst fyrir einkennum. Hún átti upphaflega ekki að fara þessa ferð en var beðin að hlaupa í skarðið þegar leiðsögumaðurinn sem átti að fara fótbrotnaði. „Ég veit ekki hvort ég smitaðist í þessari ferð, ég hef ekki hugmynd um það,“ segir hún. Einkennin voru alls ekki eins og hún hafði búist við. því í stað þess að finna fyrir eymslum í hálsi og fá hita fann hún mest til í kviðnum. Henni datt því ekki annað í hug en að hún hefði nælt sér í svæsna magapest sem væri alls óskyld COVID-19. „Maginn á mér blés út og ég var með rosalega mikla magaverki. Ég fann sjálfa mig á klósettinu á Djúpavogi þar sem ég lá í fósturstellingu og hugsaði: Hvernig á ég að koma þessu fólki, og mér, á Egilsstaði?"

Innilokuð í unglingaherbergi í fjórar vikur

Margrét Gauja komst á áfangastað og aftur heim á hörkunni en var sárkvalin. Á heimleiðinni varð henni ekki um sel þegar hún byrjaði að hósta. „Ég fer heim til mín og leggst í rúmið með hita. Þá hringi ég í læknavaktina og var tekin í test,“ segir Margrét, þá var hún líka með mjög slæma magaverki.

Niðurstaðan fékkst um hádegi daginn eftir og Margrét varð að dúsa ein í herbergi unglingsdóttur sinnar vikum saman. Fyrstu viðbrögð hennar voru skömm. „Ég fann að ég var með fordóma gagnvart sjálfri mér og mér fannst ég skítug. Svo ég ákvað að koma út með þetta,“ segir Margrét. Hún ákvað því fljótlega eftir greininguna að segja frá því á Facebook að hún væri komin í einangrun og væri með sjúkdóminn. Hún fann fyrir miklum stuðningi en eftir að fjölmiðlar sögðu frá því að hún væri á meðal smitaðra fékk hún líka ónærgætnar og særandi athugasemdir. „Ég man eftir kommenti á mbl um að ég hafi verið að keyra um landið og smyrja landsbyggðina með COVID,“ segir hún en kveðst ánægð með að hafa rofið þögnina.

Fer enn að gráta án nokkurrar ástæðu

Reynslan segir hún að hafi verið afar þungbær, líkamlega og ekki síður andlega. „Ég er enn slöpp. Það eru tvær vikur síðan ég útskrifaðist en ég er búin að eiga mjög andlega erfiða viku,“ segir hún. „Ég finn sálfa mig byrja að gráta út af engu. Ef ég hreyfi mig og er aktív þá vakna ég veik daginn eftir með hita. Á sunnudag var ég mega peppuð, búin að heimsækja foreldra mína og fer í lítinn sætan göngutúr. Ég vaknaði daginn eftir í döðlu og var í þrjá daga að jafna mig.“

Mynd með færslu
 Mynd: Vikan - RÚV
Jón Ársæll er kominn á fulla ferð eftir erfið veikindi og kveðst reynslunni ríkari.

„Var það þessi rabbíni sem smitaði mig?“

Jón Ársæll er heldur ekki viss um hvar hann smitaðist en grunar að það hafi gerst í New York þar sem hann var staddur með eiginkonu sinni skömmu áður en hann veiktist. „Ég sat fund með strangtrúuðum gyðingum í Williamsburg. Sá sem sat næst mér var mikið að hósta,“ rifjar hann upp. „Maður veltir fyrir sér: Var það hann? Var það þessi rabbíni sem smitaði mig eða hver var það?“

Eftir á að hyggja segir hann að það skipti ekki öllu máli hvar það gerðist en það varð allavega ljóst  skömmu eftir heimkomuna að hjónin voru bæði smituð. Þegar eldri strákurinn veiktist líka fór fjölskyldan öll saman í einangrun austur á land á meðan þau jöfnuðu sig. „Við sátum þetta af okkur í sveitinni."

„Gat ekki hugsað mér annað en að kúra“

Jón Ársæll er sá eini í fjölskyldunni sem veiktist alvarlega og það þurfti að leggja hann inn á sjúkrahús um tíma. Hann kannast þó ekkert við einkennin sem Margrét fékk og segir mikilvægt að fólk sé meðvitað um hvað veikin kemur fram á ólíkan hátt. „Ég var lagður inn á Borgarspítalann en það tók ekki marga daga. ég fór aldrei í öndunarvél til dæmis en ég varð mjög veikur, með mikinn hita, beinverki. Ég gat ekki hugsað mér annað en að kúra, sem ég gerði í raun í tvær vikur.“ Allt bataferlið tók um mánuð og þá fór sólin að rísa á ný. „Hún er sannarlega risin í dag, ég var meira að segja að veiða mink áðan og er kominn í fullt fjör, reynslunni ríkari.“

Kófsystkinin segjast bæði afar þakklát heilbrigðiskerfinu og þjóðinni fyrir hvernig hún hefur tekið á faraldrinum. „Ég er rosalega stolt af okkur. Það var settur siðferðiskompás og við flykktumst á bak við hann,“ segir Margrét. „Ég er líka að springa úr þakklæti til COVID-teymisins. Sú þjónusta sem ég hef fengið er ekki sjálfgefin,“ segir hún að lokum og Jón Ársæll tekur undir og kveðst þakklátur.

Rætt var við Margréti Gauju Magnúsdóttur og Jón Ársæl Þórðarson í Mannlega þættinum á Rás 1.

Tengdar fréttir

Leiklist

Sjá fram á að geta haft sýningar síðsumars eða í haust

Menningarefni

Missti eiginkonuna úr COVID-19 eftir ferð til Kanarí